145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bara lokasetningin, þar erum við ekki sammála. Ég vona ekki að þetta frumvarp nái fram að ganga, að minnsta kosti ekki eins og það er í dag. Hv. þingmaður talaði um að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga kæmi að málum. Vissulega gerir hann það að einhverju leyti. Ég er sammála því og sagði það í ræðu minni áðan að mér fyndist mikilvægt að bæði varðandi framkvæmd og samræmda þjónustu verði eitthvert lágmark, einhver lágmarksþjónusta frekar en að við séum að lögfesta misræmi á milli sveitarfélaga þannig að þau geti gert þetta eins og þau vilja, og það er auðvitað að einhverju leyti þannig. En ef við ætlum að reyna að ná utan um einhvern heildstæða velferðarpakka — við erum alltaf að hugsa þetta í smáskammtalækningum, finnst mér. Við þurfum að ná utan um þetta heildstætt.

Ég hef gert skertu starfsgetuna og vinnumarkaðinn nokkuð oft að umtalsefni hérna. Þegar atvinnuleysið var sem mest stóð vinnustöðum það til boða um tíma að ríkið borgaði hluta af launum til þess að hvetja atvinnurekendur til þess að taka fólk í vinnu. Mér finnst það jákvætt og mér finnst það alveg vera leið til þess að örva vinnumarkaðinn, en það má samt ekki vera þannig að um leið og þeim greiðslum lýkur sé viðkomandi sagt upp. Það er kannski það sem verið hefur hættan, að atvinnulífið hefur bara endurnýjað hjá sér. Það er auðvitað ekki heppilegt.

Að skerða lága fjárhagsþjónustu um 60, 70 þús. kr., eitthvað svoleiðis, í tvo mánuði — maður þarf líka að borða og sjá fyrir sér þessa tvo mánuði sem skerðingin er. Það er mikilvægt að hafa í huga að við skerðum ótrúlega lágar fjárhæðir í tvo mánuði, í 60 daga. Við höfum heyrt ítrekað fyrir jólin og oftar að öryrkjar og eldri borgara eigi ekki í sig og á. (Forseti hringir.) Ég held að það fólk sem við fjöllum um hér standi ekki betur að vígi.