145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hvort frumvarpið hafi verið metið út frá hag barna. Þó að stuðningur vegna félagsstarfs sé ekki skertur er það augljóst af öllum greiningum, og ekki bara greiningum UNICEF, að hagur barna fer heilmikið eftir því hver fjárhagurinn er á heimilinu. Ef búið er að skerða aðstoðina kemur það augljóslega niður á framfærslu þeirra sem á heimilinu búa. Það hlýtur að vera augljóst mál.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða atriði eru það sem núverandi stjórnvöld hafa lagt til til þess að bæta stöðu barnafjölskyldna, til að bæta stöðu þeirra sem verst eru settir í samfélaginu? Telur hæstv. ráðherra að stytting atvinnuleysistímabilisins hafi ekki áhrif á fólk sem er fátækt á Íslandi? Telur hæstv. ráðherra að fjöldatakmarkanir í framhaldsskóla hafi ekki áhrif á það fólk og möguleika þess fólks sem vill bæta og styrkja stöðu sína til þess að framfleyta sér og sínum með virkari hætti og betri hætti?

Ég er sammála því að það á að gera allt sem mögulegt er til að auka virkni fólks, til þess að aðstoða fólk. En refsingin sem felst í skerðingu á ekki að eiga sér stað. Það þarf ekki annað en að líta á viðurkenndar uppeldiskenningar til að átta sig á því að það mun (Forseti hringir.) ekki virka vel.