145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil líka minna hæstv. ráðherra á að frumvarpið fór ekki í gegnum þingið í tvígang (Gripið fram í.) af einhverjum ástæðum. Það er einmitt vegna þess að sú sem hér stendur hefur reynslu af rekstri sveitarfélags sem ég er mjög skeptísk á þetta frumvarp. Í minni tíð sem bæjarstjóri kom til mín fólk í miklum vanda. Það getur verið að hæstv. ráðherra finnist það fyndið, en mér fannst það ekki fyndið að taka á móti fólki í sárum vanda. Ef ég máta þetta frumvarp yfir á það fólk sem ég þekki mundi ég hafa verulegar áhyggjur af högum þess og barna þess. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég heyri ekki hvað hæstv. ráðherra kallar hér fram í en ég vonast til þess að ef hún þarf að tjá sig muni hún setja sig á mælendaskrá til að fara yfir málin.

En ég er gagnrýnin á þetta frumvarp. Ég hef áhyggjur af því að verði það að lögum muni það bitna harkalega á börnum þeirra sem verða fyrir skerðingunum. Ég veit að hvatning og aðstoð er það mikilvægasta sem fólk í alvarlegum vanda fær. Það er það mikilvægasta og það er það sem gott velferðarsamfélag gerir. Það hvetur og styður en það sparkar ekki í fólk sem á í miklum vanda.

Rannsóknir sýna og ég er viss um að hæstv. ráðherra hefur kynnt sér vel rannsóknir, að þar sem velferðarþjónustan er mest (Forseti hringir.) er árangurinn mestur.