145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það sem er erfitt í umræðunni eru þessar alhæfingar, að ungir drengir séu fastir við tölvuna og nenni ekki að vinna og skikka þurfi þá til að koma sér út á morgnana í sund og gera eitthvað og berja þurfi menn aðeins til í þessum málum. Svona alhæfingar eru ekki góðar til að byggja á heldur þurfum við að hafa góðar greiningar til að hægt sé að vinna með þeim hóp sem þarna á hlut og er ekki staddur þarna að gamni sínu.

Sá hópur sem er hverju sinni í þeim vanda að þurfa að sækja sér fjárhagsaðstoð til sveitarfélaga hefur ekkert stéttarfélag. Hann hefur enga sameiginlega rödd. Hann gengur ekki fram á Austurvöll og mótmælir. (Gripið fram í: Nei.) Hann er ekki í þeirri stöðu til þess. Hann treystir á réttsýnt fólk innan sveitarfélaga, á Alþingi, að standa vörð um réttindi sín þegar sá hópur er á þeim stað sem þarf mest á því að halda að geta treyst því að þjóðkjörnir fulltrúar og sveitarstjórnarmenn standi vörð um rétt sinn og bjóði upp á viðunandi úrræði og að fólk geti með reisn gengið aftur út á vinnumarkaðinn þegar það hefur fengið aðstoð án þess að hún hafi verið skilyrt í einhverjum refsiramma.

Ég ætla í lokin að fara með vísukorn:

Fjárhagsaðstoð félagsleg

finnst þeim mörgum byrði.

Allt hér fer á versta veg

og vandinn mikill yrði.

Þetta set ég fram í nafni ríkisstjórnar og sumra sveitarfélaga.