145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í 2. gr. frumvarpsins er talað um að heimilt sé að fella niður fjárhagsaðstoð í allt að sex mánuði í senn ef viðkomandi uppfyllir ekki þau skilyrði sem upp eru talin. Síðan stendur hér, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að skerða fjárhagsaðstoð sem er sérstaklega vegna framfærslu barna eða ætluð börnum samkvæmt reglunum.“

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort henni finnist ekki skorta á að frumvarpið sé metið út frá hag barna. Er ekki augljóst að ef það er búið að skerða fjárhagsaðstoð, sem er ekki há fyrir, í allt að hálft ár hafi það áhrif á framfærslu barnanna sem á heimilinu eru þó að sérstök fjárhagsaðstoð vegna framfærslu barna eða sem er ætluð börnum samkvæmt reglum sé þar undanskilin? Mér finnst augljóst að það þarf að afla frekari gagna eins og fram kom í andsvari hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Það hlýtur að verða að afla frekari gagna og skoða aðstæður þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafa orðið fyrir skerðingum sem sveitarfélögin eru þó sum með, hvernig staðan er á því og hvernig það hafi virkað. Mín tilfinning er sú að þetta sé eins og með rassskellingarnar, þær virka til skamms tíma (Gripið fram í.) en geta haft slæmar aukaverkanir til lengri tíma. Það held ég að muni akkúrat fylgja frumvarpinu.