145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur. Auðvitað á að taka af skarið og banna skilyrðingar. Það er náttúrlega þannig að enginn fær fjárhagsaðstoð nema sýna fram á ákveðnar aðstæður. Flest af þeim réttindum sem varða félagslega stöðu er mjög bundið ákveðnum skilyrðum. En skilyrðingar sem heimila að fólk sem sannarlega er í mjög vandasamri stöðu, þ.e. að ákvæði sem taka af því framfærslu eru ekki boðleg og það enn síður þegar ekki hefur farið fram alvörugreining á afleiðingunum sem það kann að hafa. Það er miklu frekar að banna þetta fortakslaust og fara yfir það með sveitarfélögunum hvað þarf að gera til þess að auðvelda þeim að fjármagna fjárhagsaðstoðina og veita þjónustu félagsráðgjafa og horfa til ýmissa úrræða sem hægt er að grípa til.

Hér situr hv. þm. Willum Þór Þórsson sem fer að ég held fyrir hópi sem er að endurskoða lög um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem markmiðið er að tryggja fólki framfærslu. Mér finnst mjög undarlegt að löggjafanum liggi svo mikið á að skerða réttindi fólks í veikri stöðu að ekki megi bíða eftir endurskoðun þeirra laga þannig að hægt sé að taka þetta heildstætt til umræðu í stað þess að gera í raun markmiðssetningu laganna hlægilega og marklausa.