145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta mikilvægur punktur sem hv. þingmaður kom inn á í niðurlaginu á svarinu til mín, að vitaskuld þarf að skoða þessi mál í samhengi. Mér finnst ég vera farin að hljóma svolítið eins og biluð plata þegar ég segi hér enn og aftur að mér finnst það allt of oft gerast að við fjöllum um svo agalega litla búta af samfélaginu í einu án þess að hafa alla stóru heildarmyndina undir. Auðvitað er það oft mjög erfitt. En þegar það liggur fyrir að verið er að endurskoða lög sem tengjast því sem við erum þó að tala um, þá er það svo borðleggjandi, þó svo það geti verið erfitt og krefjandi. Mér finnst að við eigum að gera þá kröfu til okkar að við reynum alltaf eins og við getum að hafa heildarmyndina undir.

Mig langar í þessu síðara andsvari, vegna þess að í fyrra andsvarinu kom ég kannski inn á það sem má segja að sé stóra grundvallaratriðið, að nefna það sem er kannski annað svona smærra og afmarkaðra atriði og mig langar að spyrja hv. þingmann einnig út í og það er vegna þess að þessi lög eiga líka að ná til þeirra sem eru vinnufærir að hluta. Ég hef áhyggjur af því hvaða svona spíral það getur haft í för með sér og spyr því hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því, vegna þess að það er ekkert í íslenskum lögum sem bannar mismunun á vinnumarkaði vegna fötlunar, að löggjafarvaldið sé að ganga allt of langt í að leggja ábyrgð á einstaklinga sem eru félagslega (Forseti hringir.) í mjög viðkvæmri stöðu en gera hins vegar (Forseti hringir.) mjög litlar kröfur þegar kemur að vinnumarkaðnum í að ráða fólk í vinnu.