145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Okkur er mikið niðri fyrir varðandi þetta mál og það þarf ekki að koma neinum á óvart. Það má velta því fyrir sér þegar við hugsum um heimilin í landinu þegar kemur að þessari aðgerð að það hugtak var markaðssett mjög fyrir kosningar og sérstaklega af hálfu framsóknarmanna. Þetta nær kannski vel inn í það. Þá var hugsunin fyrst og fremst að lækka skuldir sumra heimila. En það virðist ekki ná til þess að félagsþjónusta sveitarfélaga eigi að koma til móts við þá sem lakast standa með tilhlýðilegum hætti alla vega. Ég segi það enn og aftur að ég held að þetta sé partur af mótvægisaðgerðum fyrir hönd sveitarfélaganna vegna atvinnuleysistrygginganna, þetta eigi að létta á fjárhagslegri stöðu sveitarfélaganna eins og breytingarnar eru settar fram í frumvarpinu.

Það er ágætt að lesa umsagnir þeirra sem starfa kannski mest með því fólki sem þarf að sækja sér slíka aðstoð eins og umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands sem kom fram þegar málið var lagt fram á síðasta þingi. Félagið gerir alvarlegar athugasemdir við orðræðuna í frumvarpinu, m.a. sé sagt að það byggi á virkri velferðarstefnu en félagið getur ekki tekið undir að innihaldið sé í samræmi við virka velferðarstefnu. Það bendir á að í raun sé ekki talað um virkni, hvatningu og umbun, heldur sé áherslan fyrst og fremst á skilyrðingar og skerðingar eða refsingu. Það er einmitt þannig, refsingar í staðinn fyrir að nota umbun og hvatningu til virkni, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni.

Félagsráðgjafafélagið er eins og ég ósammála þessari nálgun. Það telur að frumvarpið sé ekki samkvæmt gildum félagsráðgjafar og hafnar þeirri nálgun sem fram kemur í frumvarpinu og telur að virkniþætti eigi fyrst og fremst að tengja við umbun. Ég var ekki búin að lesa þetta og mér finnst áhugavert að sjá að félagið spyr líka hver tengingin sé við íslenskan vinnumarkað. Ég hef miklar áhyggjur af því að það séu ekki margir atvinnurekendur tilbúnir til þess að taka við þessu fólki því að eins og ég rakti áðan þá eiga langtímaatvinnulausir oft í miklum og fjölþættum vanda þegar kemur að því að reyna að fá atvinnu.

Ég hlýt að hugleiða, eins og hefur verið sagt, að hér virðast ekki liggja að baki mannréttinda- og mannúðarsjónarmið. Ef það væri þannig þá væru ekki þessi neikvæðu formerki. Það er alveg hægt að fá fram aukna virkniþátttöku fólks. Hún þarf ekki að vera með neikvæðum formerkjum, hún getur vel verið með jákvæðum formerkjum.

Það er ekki heldur skilgreint eða lögfest að sveitarfélög þurfi að hafa sambærilegan ramma til að takast á við þau verkefni sem þeim hafa verið falið í gegnum tíðina. Eins og kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur meðal annars þá er ekki tekið utan um allt það í velferðarkerfinu sem snýr að börnum. Við höfum fjallað um barnafátækt og skort og hér er ekki tekið utan um það með heildstæðum hætti. Þetta hefur áhrif á börn. Börn fátækra foreldra verða að sjálfsögðu fyrir barðinu á því ef foreldri fær skerðingu á fjárhagsaðstoð í tvo heila mánuði og fær um það bil helming af sáralítilli framfærslu. Það er bara óhjákvæmilegt.

Við heyrum af eldri borgurum og öryrkjum sem margir hverjir eiga vart í sig og á. Það fólk sem hér um ræðir er líklega lakara statt en sá hópur. Hvernig getum við réttlætt það, í ljósi ákallsins sem er núna úti í samfélaginu um að við kröfum þeirra hópa sem lakast standa verði brugðist, að halda áfram að leggja til einhvers konar skerðingar? Allt undir þeim formerkjum, menn trúa því bara, að fólk sem komið er á þessar bætur sé almennt latt að sækja vinnu. (Forseti hringir.) Það eru vissulega svartir sauðir í þessum hópi eins og alls staðar, hér á þingi sem og annars staðar, en réttara væri að trúa því að hægt sé að leiða fólk til virkni upp úr (Forseti hringir.) öldudalnum sem fylgir því að vera atvinnulaus og þurfa að sækja styrk til sveitarfélagsins.