145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:33]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar eiginlega að halda áfram með sömu spurningu sem ég hef svolítið verið að leggja fyrir í dag og hún varðar þetta frumvarp sem á að heimila skerðingu og veikingu á grunnöryggisneti samfélagsins; netinu sem á að grípa okkur þegar öll önnur úrræði eru úr sögunni.

Í frumvarpinu er ekki gerð nein tilraun til að skilgreina þann vanda sem talið er að við eigum við að etja, sem er einfaldlega sá að með auknu atvinnuleysi fjölgar fólki á fjárhagsaðstoð og þegar atvinnuleysi minnkar þá fækkar fólki á fjárhagsaðstoð. Rétt eins og er að gerast núna. Það sem er merkilegt er að hlutfallslega fóru færri á fjárhagsaðstoð nú en á tímabilum efnahagslægða þar sem atvinnuleysi var mun minna en það var hér 2009.

Hér er engin tilraun til að lýsa þeim hópi sem er á fjárhagsaðstoð. Það eru engar tölfræðiupplýsingar um meðallengd fjárhagsaðstoðar. Það vantar alla greiningu á viðfangsefninu. Mér finnst þetta svo metnaðarlaust og skrýtið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort henni finnist góður bragur á þessu. Ég veit að hún er ósammála hugmyndafræðinni, en finnst henni traustvekjandi að ráðuneytið sýni það metnaðarleysi að senda ekki frá sér betri upplýsingar þegar á að fara í svo harkalega og afdrifaríka lagasetningu?