145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nákvæmlega spurningin sem brennur á vörum manns. Hvað verður um það fólk sem sætir skerðingum af því að það tekur ekki af fúsum og frjálsum vilja þátt í virkniúrræðum stjórnvalda?

Þegar við spyrjum þeirrar spurningar í velferðarnefnd segja sveitarfélögin: Við vitum það ekki. Auðvitað eru margar sögur um það hvað gerist, en við getum bókað að ákveðinn hópur ýtist lengra út á jaðar samfélagsins og telur sig ekki vera þess verðugan að vera þátttakandi í samfélagi okkar hinna. Það er í raun og veru verið að segja: Veskú, þú ert ekki með okkur lengur. Farðu nú í undirheimana og vertu þar með þínum líkum. Þetta er mannfyrirlitningarstefna.

Í frumvarpinu er farið yfir framkvæmdina á Norðurlöndunum og Norðurlöndin hafa hagað sér eins og bjánar í þessum efnum og verið að auka skilyrðingar smám saman síðustu 10 til 20 árin. Það er umhugsunarefni, ekki síst fyrir okkur á vinstri vængnum, að öfgaöflum, þjóðernisöflum, hefur vaxið ásmegin á Norðurlöndunum og víða í Evrópu og það eru ekki síst kjósendur krata sem eru að flykkja sér á bak við þessa flokka vegna vonbrigða því að þeir telja að við höfum ekki staðið vörð um hagsmuni fólksins heldur fjármagnsaflanna.

Svo koma popúlistar með þjóðernisboðskap, búa til blóraböggla, (Forseti hringir.) sem eru innflytjendur, einhverjir sem eru enn verr staddir eða hægt að jaðarsetja með einhverjum hætti. Ég held að við ættum að hafa það hugfast á Íslandi að gera ekki Norðurlöndin að fyrirmynd varðandi það að þrengja að þeim sem minnst hafa í samfélaginu.