145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er gríðarlega mikilvægt þegar við ræðum þetta frumvarp sem snýst um skilyrðingu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna að hafa alltaf í huga að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er síðasta netið í velferðarkerfinu okkar sem grípur fólk þegar það getur ekki séð fyrir sér sjálft, ýmist vegna þess að það er án atvinnu, á ekki rétt í öðrum kerfum í velferðarkerfinu okkar, t.d. örorkulífeyriskerfinu, eða þá að það hefur klárað rétt sinn í öðrum kerfum, eins og atvinnuleysistryggingakerfinu. Þetta verðum við alltaf að hafa í huga þegar við tölum um þann hóp sem þetta frumvarp beinist að.

Í þessari umræðu hefur verið vitnað í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og þá fyrst og fremst markmið laganna. Ég ætla svo sem ekki að nota þann stutta ræðutíma sem ég hef til að lesa þessi markmið upp en mig langar samt að stilka á stóru og nefna nokkur lykilatriði eins og það að markmiðið er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi fólks og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Þetta á að gera með því að bæta lífskjör þeirra sem höllum fæti standa og tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði barna og ungmenna.

Við skulum halda þessum tveimur atriðum til haga vegna þess að margoft hefur verið bent á það í þessari umræðu að við verðum að hafa sérstaklega í huga að við vitum í rauninni ekkert hversu mörg börn búa á heimilum sem verða fyrir skilyrðingum nú þegar.

Það hefði verið mjög forvitnilegt inn í þessa umræðu að formaður nefndar um endurskoðun á áðurnefndum félagsþjónustulögum, hv. þm. Willum Þór Þórsson, hefði tekið virkan þátt í þessari umræðu því að þessi mál hljóta að tengjast og vera skyld. Ég velti hreinlega fyrir mér hvort þetta sé forsmekkurinn að því sem koma skal. Má eiga von á því að það eigi að taka til endurskoðunar inntak félagsþjónustulaganna eins og þau eru núna? Þetta skiptir auðvitað máli inn í þá umræðu sem við erum í núna.

Frú forseti. Vegna þess að sveitarfélögin eru nú þegar að beita skilyrðingum treysti ég mér ekki til að útiloka að ekki hafi komið upp dæmi þar sem það hefur virkað og að einhverjir einstaklingar hafi komist til virkni vegna þess að skilyrðingum hefur verið beitt. Það er í rauninni ekki sá hópur sem ég hef sérstakar áhyggjur af, heldur sá hópur sem er ýtt enn þá lengra út á jaðar samfélagsins vegna þess að hann hefur enn minna fé á milli handanna til að komast af og getur þess vegna á engan hátt tekið þátt í samfélaginu. Mér er það mjög minnisstætt þegar hingað til lands kom Dani og talaði um hvernig kerfið virkar í Danmörku þar hann talaði um að þetta væri vaxandi vandamál, þ.e. fólk sem er alveg komið út á jaðar samfélagsins vegna þess að skilyrðingar hafa í rauninni ekki þjónað markmiði sínu heldur gert akkúrat þveröfugt, ýtt fólki enn lengra í burtu frá því að taka virkan þátt í velferðarsamfélaginu. Þess vegna verður að sjá til þess (Forseti hringir.) að fyrir liggi upplýsingar um hvað hefur orðið um það fólk sem hefur verið beitt skilyrðingum hér á landi.