145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni í því að við eigum ekki að einstaklingsvæða kerfisvanda. Þess vegna hef ég margítrekað í allri þessari umræðu bent á að mér finnist mjög skrýtið að ekkert í lögum á Íslandi banni mismunun á vinnumarkaði, t.d. vegna skerðingar eða fötlunar. Mér finnst þetta hreinlega alveg galið. Ef ekki vill betur til verð ég kannski bara að flytja frumvarp um að við tökum þetta inn í löggjöfina.

Eins og hv. þingmaður benti á kom það fram í fyrra í hv. velferðarnefnd að sveitarfélögin vissu ekki mikið um hvað verður um fólk sem hefur verið beitt skilyrðingum. Ég hefði viljað sjá að úr því að hæstv. ráðherra ákvað að leggja frumvarpið fram aftur hefði verið búið að taka þessar upplýsingar saman. Þá væri eitthvað af haldgóðum gögnum sem við hefðum þó til að meta hvaða áhrif það sem nú þegar er í gangi hefur haft.

Að því sögðu vil ég í þessu fyrra andsvari enda á að segja vegna þess að ég kom því ekki að í ræðu minni áðan að ég tel að frekar en að veita með þessu frumvarpi sveitarfélögunum heimild til að beita skilyrðingum hefði verið nær að fara algjörlega í hina áttina, taka af öll tvímæli og hreinlega banna allar skilyrðingar, til að mynda með tilvísun í lög (Forseti hringir.) um félagsþjónustu sveitarfélaga.