145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[16:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom inn á mál sem er mér mjög hugleikið og ég tel mjög mikilvægt að við ræðum og reynum að ná heildstætt utan um. Það er rétt að síðustu missiri hefur mikið verið talað um mikilvægi þess að taka upp starfsgetumat í stað örorkumats. Nú ætla ég síst að mæla núverandi örorkumatskerfi eða almannatryggingakerfi of mikla bót. Það er margstagað og bætt. Það er mjög flókið, en það hefur líka kosti, kannski sér í lagi fyrir fólk með sumar tegundir af skerðingum.

Hv. þingmaður kom inn á skort á störfum, þar á meðal hlutastörfum. Það er einmitt eitt af því sem ég hef áhyggjur af þegar kemur að starfsgetumati, þ.e. að við búum til almannatryggingakerfi sem byggist á því að fólk fái bætur að hluta en sé útivinnandi að hluta. Auðvitað er það gott og göfugt markmið og ég held að allir öryrkjar vilji vera í vinnu, a.m.k. að hluta, en á það hefur verið bent að það sé skortur á þessum störfum. Það er samt ekki bara það, við höfum síðasta árið hreinlega horft upp á það að fötluðu fólki er sagt upp þeim hlutastörfum sem það þó er í. Við getum nefnt sem dæmi uppsagnirnar hjá Strætó og svo uppsagnir hjá Landsbankanum, minnir mig, þar sem fötluðu fólki sem þá þegar var í vinnu var sagt upp. Þessa stöðu hljótum við alltaf að þurfa að hafa í huga (Forseti hringir.) þegar við ætlum að búa til kerfi, hvort sem það er innan almannatryggingakerfis ríkisins (Forseti hringir.) eða hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna. Við verðum að hafa þennan veruleika í huga og muna eftir honum, ekki bara hugsa þetta út frá einhverju sem lítur vel út á blaði.