145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

málefni ferðaþjónustunnar.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér þykir hv. þingmaður ganga heldur langt í því að draga upp neikvæða mynd af þeirri miklu fjölgun ferðamanna sem við höfum horft upp á undanfarin ár. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, fjölgunin hefur verið gríðarlega mikil, m.a. vegna þess að það var komist hjá því að fara í skattaaðgerðir sem síðasta ríkisstjórn boðaði sem hefði verið til þess fallin að fæla fólk frá, eins og reyndar nokkrir hv. fyrrverandi þingmenn Samfylkingarinnar mega eiga að þeir viðurkenndu síðar að hefðu verið mistök, að ætla að fara í þá gjaldtöku, enda höfðu þeir sem best þekkja til í þessari grein bent á að það hefði akkúrat verið vísasta leiðin til að snúa við þeirri þróun sem var farin af stað og hefur haldið áfram á miklum hraða, að ferðamönnum til Íslands fjölgar mikið. Það kallar auðvitað á innviðauppbyggingu og hana þarf að fjármagna. Hins vegar hefur fjölgunin verið það hröð að jafnvel það fjármagn sem hefur verið til reiðu í innviðauppbyggingu hefur ekki verið nýtt jafn hratt og stjórnvöld hafa veitt það. Þegar ferðamönnum fjölgar eins mikið og hv. þingmaður benti á, að þeir urðu jafn margir í janúar núna og í júní 2012, ef ég heyrði rétt, segir það sig sjálft, virðulegur forseti, að menn þurfa tíma í ferðaþjónustunni og sveitarfélögin um allt land og þeir sem halda utan um ferðamannastaði til að bregðast við því. Það hefur ekki staðið á ríkisstjórninni í því. Þó að þær tillögur sem hv. þingmaður vísaði til og hæstv. iðnaðarráðherra kynnti hafi ekki fallið í kramið hjá hv. þingmanni hafa menn í millitíðinni haft aðrar leiðir til þess að sækja fjármagn, þeir sem hafa verið reiðubúnir að nýta það. Þegar fjölgunin er þetta gríðarlega hröð er eðlilegt að það taki tíma að byggja upp kerfi sem getur (Forseti hringir.) haldið í við þá þróun.