145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

endurreisn heilbrigðiskerfisins.

[15:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég hef sjálfur sagt að það sem er mest áríðandi að endurfjármagna og endurgera í íslenskri heilbrigðisþjónustu í dag er fjármögnun hjúkrunarheimila aldraðra, heilsugæslan og lyfjakostnaður. Þetta eru þeir þrír meginþættir sem mér þykir brýnast að ganga í og berja aðeins í þá bresti sem þar hafa komið. Ég undirstrikaði þann vilja minn við fjárlagagerð fyrir síðastliðin tvö fjárlagaár.

Hv. þingmaður nefnir undirskriftasöfnunina sem er í gangi. Ég hef litið til hennar með þeim hætti að hún endurspegli vilja fólks og almennings í þessu landi til að hafa heilbrigðiskerfið í sem bestu ástandi hverju sinni. Það held ég að sé undirliggjandi þáttur í því dæmi. Ég læt alveg liggja á milli hluta prósentur af einhverri óræðri stærð. Það skiptir ekki meginmáli. Viljinn er mjög sterkur og ríkur.

Varðandi það sem spurt er um endurbyggingu þjóðarsjúkrahússins þá erum við að vinna það eins hratt og við mögulega getum. Þar eru hafnar framkvæmdir við sjúkrahótel. Hönnun á meðferðarkerfunum er í gangi. Verkið var einfaldlega ekki komið lengra en raun ber vitni á sínum tíma og við höfum verið að setja í það fjármuni sem gera okkur kleift að vinna samkvæmt þeim áætlunum að spítalinn verði allur kominn í nýtt stand um árið 2022/2023.