145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

endurreisn heilbrigðiskerfisins.

[15:16]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég les ekki aðeins ríkan vilja út úr hinni miklu þátttöku í undirskriftasöfnuninni heldur líka að almenningi þyki ekki sýnt nógu vel á spilin eða að fólk hafi ekki trú á því sem það sér. Þó svo að vissulega hafi aukið fjármagn verið veitt í heilbrigðiskerfið hefur það ekki verið nema fyrst og fremst til þess að mæta auknum launakostnaði.

Ég vil hvetja ráðherrann til þess að setja af stað vinnu og helst þverpólitíska vinnu við að leggja drög að endurreisn heilbrigðiskerfisins í takt við vilja þjóðarinnar og að mér heyrist vilja hæstv. ráðherra.

Ég vil segja það í þessum stól að það stendur ekki á okkur í Bjartri framtíð að taka þátt í þeirri vinnu. Við teljum hana með því mikilvægasta sem við getum tekið okkur fyrir hendur.