145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

endurreisn heilbrigðiskerfisins.

[15:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að að sjálfsögðu verðum við að gera betur og við getum gert betur. En samt sem áður, þrátt fyrir að við viljum öll leggja meira á okkur og gera betur en við gerum í dag, má ekki horfa fram hjá því sem vel er gert.

Aðalkrafan á stjórnvöld í þessu landi fyrir rétt rúmu ári var sú að bæta kaup og kjör heilbrigðisstarfsmanna. Það hefur verið gert myndarlega. Við stöndumst samkeppni við nágrannaþjóðir í þeim efnum. Vissulega getum við gert betur á ýmsum öðrum sviðum og að því er unnið. Framlögin sem við höfum sett í heilbrigðisþjónustuna hafa ekki verið til einskis. Ég nefni ákveðin dæmi sem við sjáum á bæði Landspítalanum og heilbrigðisstofnunum þar sem verið er að taka í gagnið nýjungar o.s.frv.

En það breytir ekki þeirri staðreynd að kerfið eins og það er þarf að virka betur en það gerir. Það er fullur vilji til þess að vinna að breytingum á því og leggja fram lengri tíma stefnumótun. Að því verki er unnið og ég vænti þess og vona (Forseti hringir.) að geta kynnt það verk á vormánuðum.