145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

aukin framlög til heilbrigðismála.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er það að frétta af heilbrigðismálunum að þessi ríkisstjórn hefur haldið áfram að forgangsraða í þágu heilbrigðismála og stórbæta við framlög til þess málaflokks, ekki hvað síst á þessu ári með líklega um 19 milljarða kr. viðbót eða meira en 10% hækkun á milli ára. Ég veit ekki hvenær menn sáu síðast slíka aukningu í framlögum til heilbrigðismála á þessu landi og ég veit ekki hvaða annað land í Evrópu er að auka framlög til þessa málaflokks jafnmikið og við Íslendingar nú.

Það er svo sannarlega verið að forgangsraða í þágu málaflokksins. Það er ánægjulegt að um það virðist ríkja góð samstaða í samfélaginu að slíkt beri að gera, að það eigi að bæta í þennan málaflokk sem var því miður illa sveltur á síðasta kjörtímabili þegar forgangsröðunin var önnur, eins og formaður Samfylkingarinnar hefur gert ítarlega grein fyrir í bréfi þar sem hann útlistar það að sú ríkisstjórn sem síðast sat í þessu landi hafi beinlínis forgangsraðað í þágu banka, fjármálakerfisins, en ekki í þágu heimilanna og þar með talið heilbrigðiskerfisins.

Þetta er auðvitað eitthvað sem tekur tíma að vinna upp. Um 30 milljarða kr. niðurskurður til heilbrigðismála á síðasta kjörtímabili. Auðvitað tekur það á. Auðvitað hefur það áhrif sem tíma tekur að bæta fyrir. En þá er eins gott að við höldum áfram á sömu braut, höldum áfram að bæta eins mikið í heilbrigðismálin og við höfum verið að gera á öllum sviðum og er ánægjulegt að skynja stuðning almennings við það.