145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

viðbrögð við undirskriftasöfnun.

[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þeim ágöllum sem eru vissulega á íslenska heilbrigðiskerfinu og margir kannast við verði ekki útrýmt í einni svipan eða með einni handsveiflu eða á einu ári. Þetta er lengri tíma verk. Eins og ég hef margoft sagt og allur þingheimur gerir sér grein fyrir er þetta flókið og viðamikið kerfi og það tekur einfaldlega langan tíma að gera breytingar og bregðast við. Til viðbótar þeim ágætu þremur málum sem ég nefndi áðan vil ég nefna það sem þegar hefur verið sett af stað, sem lýtur að því að stytta biðlista í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það miðar ágætlega á sumum sviðum, öðrum gengur hægar að komast af stað, en það voru settir verulegir fjármunir í að vinna bæði niður biðlistana og taka á hinum svokallaða fráflæðisvanda frá Landspítalanum. Það vinnur með okkur og það er algerlega ástæðulaust að draga fjöður yfir það að þeir þættir létta á. En það er langur vegur frá (Forseti hringir.) að við séum búin að vinna á öllum þeim vandamálum sem þarna er við að glíma.