145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

ný aflaregla í loðnu.

[15:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp. Ég býst við að þingmenn þekki að loðnan er undirstöðustofn í lífkerfi hafsins og fiskauðlindarinnar hringinn í kringum landið. Aflaregla sem við höfum haft frá árinu 1983 byggði á því að skilja eftir um 400 þús. tonn til hrygningar. En hún hefur sætt verulegri gagnrýni hjá ICES, Alþjóðahafrannsóknaráðinu.

Helsta gagnrýnin á þá reglu var að hvorki var lagt mat á óvissu í bergmálsmælingum né tekið tillit til hennar í ráðgjöfinni. Auk þess voru framreikningar byggðir á ungloðnumælingum gagnrýndir, m.a. vegna þess hversu lágt mat var á náttúrulegum afföllum.

Árið 2009 mat ICES að aflareglan samræmdist ekki varúðarsjónarmiðum. Það þýðir í raun og veru að ekki er hægt að fá vottun á þessa vöru sem skiptir okkur auðvitað miklu máli í nútímamarkaðsástandi.

Í janúar 2015 fór ICES yfir tillögu að nýrri aflareglu sem þá hafði verið unnið að um fjögurra ára skeið. Niðurstaðan varð sú að hún var talin í samræmi við varúðarsjónarmið. Reglan byggist að stórum hluta á sömu aðferðafræði og gildir fyrir aflareglu loðnu í Barentshafi. Við Íslendingar höfum, í samskiptum við Norðmenn og Grænlendinga, ákveðið að taka þessa aflareglu upp við ákvörðun aflamarks og veiða þessara þriggja ríkja. Með þeim hætti höfum við náð því markmiði sem við höfum lagt mikla áherslu á, að koma í veg fyrir að menn veiði loðnu á sumrin þegar hún er miklu minni og yngri. Það skiptir miklu máli.

Varðandi síðustu spurninguna, hvort gamla aflareglan hafi nýst vel, þá er það þar með skýrt að hún stóðst ekki viðmið ICES. Í öðru lagi er ekkert sem segir að gamla aflareglan hafi reynst vel. Magn loðnu við Ísland hefur minnkað jafnt og þétt nú um langa hríð, kannski vegna umhverfisskilyrða en veiðar gætu sannarlega átt stóran þátt í því. Þannig hefur til að mynda orðið loðnubrestur tvisvar sinnum á þessu tímabili, ef ekki oftar. Það er ekki til nein mæling á því hve mikið af loðnu hrygnir. Einu gögnin sem við vitum nokkurn veginn skalann á er aflinn.

Þá er einnig spurt hvort þetta byggði á fjölstofna líkani. Það er rétt að vekja athygli á því að hér er fyrst og fremst um afránslíkan að ræða, ekki eiginlegt stofnmatslíkan sem mundi þá teljast fjölstofna líkan. Talsverð gögn liggja að baki afránslíkaninu en það byggir á gögnum allt frá 1985 og mælingum á loðnustofninum frá þeim tíma. Vissulega er óvissa í afránslíkaninu en það tekur þó tillit til breytinga á stofnstærð ránfiska sem gamla aflareglan gerði ekki, en í henni var aðeins um að ræða föst afföll upp á um 5%.

Hvort skynsamlegra hefði verið að ljúka markvissum rannsóknum á öllum þeim breytum þá er það rétt sem kom fram hjá þingmanninum að það er mikil skekkja. Það er erfitt að telja fiskana í sjónum. En magn þorsks og annarra ránfiska breytist og hefur verið að breytast og er að aukast. Gamla aflareglan tók ekkert tillit til breytinganna og var ein helsta gagnrýni sem á hana var gerð. Með þessu erum við að mæta kröfum tímans. Í raun og veru mætti alveg eins gagnrýna að breytingin hafi ekki verið gerð miklu fyrr.

Varðandi það hvort búið sé að tryggja fjármagn og vinnuáætlanir til að auka rannsóknir er því til að svara að hingað til hafa rannsóknir á loðnu að mestu leyti snúist um leit og magnmælingar til að byggja ráðgjöfina á. Slíkar mælingar nýtast illa sem rannsóknargögn. Frekari rannsóknir eru mjög æskilegar og eins að fá mælingu á því hversu mikið af loðnu hrygnir en það yrði líklega best gert með því að mæla magn lirfa sem fyrst eftir hrygningu.

Varðandi fjársvelti Hafrannsóknastofnunar þá er það rétt að gegnum mörg ár hefur sú stofnun þurft að þola niðurskurð eins og ýmsar aðrar stofnanir í samfélaginu. Við höfum verið að auka við það á liðnum árum og skilaði Hafrannsóknastofnun ágætum afgangi á síðasta ári, svo að dæmi sé nefnt.

Það er ljóst að stærri þorskstofn mun éta meira. Áhrif af áti hvala hafa ekki verið tekin inn í aflaregluna. Ný aflaregla getur því haft áhrif á loðnuverð með stækkandi þorskstofni og vexti hvala. Það sem mun þó hafa mest áhrif á aflamörk loðnu er hvort hægt sé að meta stofnstærð loðnunnar og eyða eða minnka óvissuna í mati á því, á stofnmatinu. (Forseti hringir.) Ég kem að síðustu tveimur spurningunum í lokasvari.