145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

ný aflaregla í loðnu.

[15:56]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Mikilvægustu forsendurnar fyrir góðri veiðiráðgjöf eru rannsóknir Hafrannsóknastofnunar. Allt traust okkar í samfélagi þjóðanna byggir á vísindalegum rannsóknum og við Íslendingar höfum unnið okkur inn traust alþjóðasamfélagsins í fiskveiðiráðgjöf og nýtingu fiskveiðistofna í lögsögu Íslands, ekki það að rannsóknir séu hafnar yfir gagnrýni og málefnalega umræðu sem er alltaf til góðs. Eldri aflaregla hafði ekki alþjóðlega viðurkenningu og því var ný regla tekin upp sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar. Nú geta fyrirtæki í veiði og vinnslu aflað sér vottunar, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir alla sjávarvinnslu í landinu. Tekið er inn í nýja aflareglu stækkun og afrán þorsksins á loðnustofninum, en þorskstofninn hefur vaxið gríðarlega á liðnum árum og taka þarf tillit til þess í úthlutun úr loðnustofninum. Hér sannast hið fornkveðna að eins dauði er annars brauð. Þessi ákvörðun um breytingar á veiðireglunni vegna stækkandi þorskstofns sýna okkur hvað það er mikilvægt að halda samræmi í lífsgæðum náttúrunnar, að nýting veiðistofna verði í samræmi við stækkun einstakra stofna og veiðigetu þeirra og að við leggjum okkur fram við sjálfbæra nýtingu í veiðum og vinnslu hringinn í kringum landið. Það eru Íslendingar þekktir fyrir.

Á síðustu árum hefur stofn hnúfubaks vaxið gríðarlega, en talið er að hann stækki um 10% á hverju ári og stofninn telji á bilinu 16–20 þús. dýr. Það er ekki aðeins að hvalirnir valdi miklu tjóni á veiðarfærum loðnuskipa á miðunum fyrir norðan og austan land þegar þeir stinga sér inn í loðnunetin og sprengja veiðarfærin sem kosta tugi milljóna, heldur éta þeir ógrynni af fæðu úr hafinu. Það er talið að hvert fullvaxta dýr éti um 800 kg á hverjum degi. Það er því mikilvægt að gæta að jafnvægi náttúrunnar til að einn stofn vaxi ekki umfram aðra og fæðukeðjan standi undir sér.