145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

ný aflaregla í loðnu.

[16:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er náttúrlega vel þekkt hið þjóðhagslega samhengi, það er óvenjuskýrt þegar kemur að mælingum á loðnustofninum og komið er inn á vertíðina. Og hafi ekki áður tekist fullnægjandi mælingar þá getur það hlaupið á milljörðum og tugum milljarða króna ef góðar niðurstöður nást sem sýna að veiðistofninn, væntanlegur hrygningarstofn, er kannski stærri en menn höfðu áður náð utan um í mælingum. Einhvern veginn fær maður ekki annað til að ganga upp en að mæling á göngunni sjálfri, þegar komið er fram undir hrygningu, hljóti að vera mjög stór breyta í þessu vegna þess að það er svo vel þekkt hversu óvissar mælingarnar eru á fyrri stigum. Loðnan er skammlífur stofn og ekki mikill tími til stefnu að átta sig á stærð hvers árgangs og oft ekki endanleg niðurstaða í því fyrr en þá ef tekst að mæla gönguna rétt fyrir hrygningu.

Varðandi hina nýju aflareglu, og má segja svona líffræðilegar og tæknilegar aðstæður til að afla gagna í hennar þágu, þá viðurkenni ég vel að mér er það samhengi kannski ekki nógu ljóst, en ég hef velt fyrir mér, svipað og hv. málshefjandi, hvort við séum að öllu leyti nægjanlega vel undirbúin til að taka þessa reglu upp og þá í einu skrefi, eða hvort hægt hefði verið að hugsa sér að innleiða hana í áföngum með stuðningi við eldri reglu að einhverju leyti.

En að sjálfsögðu og til að taka af vafa um það þá þurfum við að byggja á bestu viðurkenndum aðferðum í þessum efnum og hafa innstæður fyrir því að við séum að ástunda sjálfbæra nýtingu. Það er afar mikilvægt og ekki síst þegar undirstöðutegund í fæðukeðjunni eða lífríkinu af þessu tagi á í hlut.

Það færir mig á þær slóðir að velta fyrir mér frammistöðu okkar sjálfra, ekki bara í því að skrapa saman fyrir olíu á skipin og reyna að mæla stofninn til að við getum veitt sem mest, heldur fjármuni til grunnrannsókna, undirstöðurannsókna, þær verða þeim mun mikilvægari sem við ætlum að fara dýpra inn í þetta samhengi og notast við afrán og fjölstofna líkön og hvað það nú er. Þar (Forseti hringir.) held ég að við þurfum virkilega að taka okkur tak og efla (Forseti hringir.) hafrannsóknir, ekki bara sem mælingastofnun heldur sem grunnrannsóknastofnun og undirstöðurannsóknastofnun.