145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

ný aflaregla í loðnu.

[16:08]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er glöð að heyra að það er samhljómur með öllum þeim hv. þingmönnum sem talað hafa um þetta mál og raunar líka ráðherra. Það vilja allir sjálfbærar veiðar, það vilja auðvitað allir fá eins mikið og hægt er af loðnunni til veiða og vinnslu en þó ekki svo mikið að við eyðileggjum fyrir okkur. Það er mjög gott að við séum sammála um það.

Hæstv. ráðherra fór yfir það hvað við vitum lítið um loðnuna. Hann sagði að erfitt væri að telja fiskana í sjónum. Auðvitað er það erfitt en hann hefur þó tækin til þess. Þess vegna vil ég beina því til ráðherra, þegar hann heyrir hversu áhyggjufullir þingmenn allra flokka eru um þetta tiltekna mál: Ætlar hann að sjá til þess að við förum að læra aðeins meira um fiskinn í sjónum, að förum að geta talið hann með aðeins nákvæmari hætti? Við höfum sagt, og hæstv. ráðherra sjálfur hefur sagt að það gerist bara með því að Hafrannsóknastofnun vinni meira og betur að málum. Þá þarf að veita meira fé til þessarar mikilvægu stofnunar því að það sem við eyðum í þeim efnum getum við fengið margfalt til baka. En auðvitað þarf að leggja nokkuð í hana til þess að við getum á góðum árum verið viss um að við veiðum í samræmi við það sem við getum veitt og megum veiða. Ég beini því til ráðherra að skýra þinginu frá því hvernig hann ætlar að bæta þessa stofnun.