145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

sala ríkisins á leigufélaginu Kletti ehf.

488. mál
[16:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Að Íbúðalánasjóður sé sjálfstæð stofnun og að leigufélagið Klettur hafi verið hugsað sem tímabundið úrræði og ekki framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs að reka slíkt leigufélag segir auðvitað ekkert um það að ríki og sveitarfélög til samans eða aðrir félagslegir aðilar hefðu ekki getað lagt drög að því að nýta það húsasafn sem komið er í opinbera eigu með því að Íbúðalánasjóður hefur leyst til sín fjölda eigna með einhverjum hætti til þess að bæta stöðuna til dæmis á leigjendamarkaðnum.

Það eru ótal leiðir færar til þess. Ríkið gat þess vegna bara stofnað sjálfstætt leigufélag óháð Íbúðalánasjóði og þá hefði það ekkert ragað upp á samkeppnisstöðu hans.

Menn hljóta að spyrja sig: Hvað verður um þessar íbúðir ef þær verða seldar á markaði núna? Hverjir eru líklegir til að kaupa þær? Eru það ekki einkarekin leigufélög og/eða aðilar sem vilja ná sér í húsnæði í þágu ferðaþjónustu til dæmis? Þarna eru góðar íbúðir og í Kletti er (Forseti hringir.) besti hluti húsasafnsins, sem hefði auðvitað verið mjög freistandi að nýta með einhverjum hætti í því til þess að draga aðeins úr vöntuninni á húsnæði til leigu á viðráðanlegum kjörum.