145. löggjafarþing — 75. fundur,  15. feb. 2016.

endurskoðun reglugerða varðandi hjálpartæki.

519. mál
[16:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er ekki alveg ánægður með þau. Ég hefði viljað að hann mundi endurskoða þetta í ljósi þess sem ég taldi upp áðan, að gera ferlið einfaldara fyrir fólk þannig að upplýsingar séu til í gagnagrunni. Það eru engar líkur á því að sumir sem jafnvel lamast fyrir neðan brjóst nái bata aftur, þannig að það liggur ljóst fyrir að þeir eru með varanlega örorku til lífstíðar. Það er bara verið að tala um að ef fólk þarf á nýjum tækjum að halda þá geti jafnvel sjúkraþjálfari eða einhver sérfræðingur sem viðkomandi er í sambandi við sótt um hjálpartækin án þess að fara þurfi í gegnum allt ferlið. Um þetta snýst málið, að einfalda ferlið, gera þetta minna vesen fyrir fólk sem á í erfiðleikum fyrir, t.d. að fara um og annað. Ég er alveg sammála hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur sem kom inn á það áðan að skoða þarf þessa reglugerð miklu betur og einmitt þá grein sem hún talaði um. Ég einbeitti mér að 9. gr. í dag, en það þarf að fara í gegnum þetta.

Hv. þingmaður spurði líka um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ég velti fyrir mér: Var haft samband við fatlað fólk þegar reglugerðin var samin? Eitt lykilatriði í því að innleiða í samfélagið þennan samning er að fatlað fólk sé haft með í ráðum þegar verið er að semja regluverk sem viðkemur því.

Í dag erum við mjög netvædd þjóð. Það ætti að vera mjög einfalt að búa til gagnagrunn sem gerir það að verkum að fólk þurfi ekki endalaust að vera að sækja um þetta. Dæmi sem sýnir flækjustigið, eins og kom fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra áðan, er að þetta er eina reglugerðin sem heyrir undir hann, svo eru aðrar reglugerðir sama eðlis sem falla undir aðra tvo ráðherra. Það er eitt af því sem maður vildi sjá að yrði breytt og flækjustigum eytt.