145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Einn réttur, ekkert svindl. ASÍ er að hrinda af stað átaki í að koma í veg fyrir félagslegt undirboð á vinnumarkaði og verja réttindi fólks. Ég tel það vera mjög brýnt verkefni því að það hefur færst í vöxt undanfarin missiri að brotið sé á réttindum verkafólks, hvort sem er í byggingariðnaði eða í ferðaþjónustu. Við erum kannski komin á þann stað sem við vorum þegar þenslan var sem mest 2007. Það á ekki að líða að það séu félagsleg undirboð á vinnumarkaði og ólögmæt atvinnustarfsemi.

Ungt fólk þekkir ekki rétt sinn og oft og tíðum er brotið gegn því. Erlent vinnuafl sem kemur til landsins, hvort sem er í gegnum starfsmannaleigur eða undirverktaka, og það er mjög gjarnan brotið gegn því fólki. Það fólk býr oftar en ekki í óviðunandi húsnæði, í atvinnuhúsnæði sem er ekki samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Það er talað um að jafnvel viðgangist hálfgert þrælahald sem við eigum ekki að líða á íslenskum vinnumarkaði. Ég tel því að þetta átak sé mjög brýnt og þarft.

Samtök atvinnulífsins þurfa líka að sýna ábyrgð í þessum efnum. Fyrirtækin eiga að starfa eftir þeim kjarasamningum sem Samtök atvinnulífsins hafa skrifað upp á. Þau verða líka að sjá til þess að fyrirtækin gæti að því að undirverktakar og aðrir greiði rétt laun. Við getum ekki liðið það á íslenskum vinnumarkaði að svínað sé á fólki með þeim hætti sem er því miður verið að gera. Ríkisvaldið þarf líka að koma inn. Við erum að missa út gífurlega miklar skatttekjur víða í atvinnulífinu sem ríkisvaldið þarf að koma í veg fyrir.


Efnisorð er vísa í ræðuna