145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ýmsir hafa haft nokkuð fyrir tísku að tala niður og finna allt til foráttu einhverri mestu samgöngubót allra tíma sem nú er í sjónmáli á Norðurlandi, sem sagt gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

Því er ánægjulegt að geta sagt frá því í dag að á vefinn komu upplýsingar um að nú væri búið að sprengja liðlega tvo þriðju af leiðinni í gegnum fjallið. Það er ekki hægt að segja að heppnin hafi beinlínis verið með mönnum í framkvæmdinni. Heiðin hefur reynst erfið viðureignar og þar hefur allt lagst saman, vatnsleki, mikill hiti og hrun, og valdið talsverðum töfum og auðvitað nokkrum kostnaðarauka. Engu að síður er nú þeim áfanga náð að liðlega tveir þriðju hlutar leiðarinnar eru að baki og það er enginn bilbugur á mönnum að klára það sem eftir er.

Á framkvæmdatímanum hefur það einnig gerst að umferðaraukning hefur orðið mun meiri en spár gerðu ráð fyrir þannig að þrátt fyrir þessar tafir og kostnaðarauka eru horfur áfram ágætar og sambærilegar og þær voru um sjálfbærni verkefnisins.

Snjóþungir vetur að undanförnu sem landsmenn hafa orðið varir við, þeir sem fara yfirleitt eitthvað út úr húsi, það má stundum efast um að sumir geri það, hafa minnt hressilega á sig (Gripið fram í.) fyrir norðan og austan, og meðal annars stórkostleg vandræði á Víkurskarði undirstrika mikilvægi þessarar góðu framkvæmdar. Hennar er því beðið með mikilli óþreyju norðan heiða.

Ég er að velta fyrir mér að koma með þau vinsamlegu tilmæli til aðila sem varðar ekkert sérstaklega um það sem menn eru að gera þar, og ætla að borga þessi göng sjálfir, að láta þessa framkvæmd í friði og leyfa henni að klárast.


Efnisorð er vísa í ræðuna