145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Nú fyrir helgi sendu samtökin Læknar án landamæra frá sér yfirlýsingu. Tilefnið var fréttir af því að hernaðarbandalagið NATO ætlaði að senda herskip á hafsvæðið milli Grikklands og Tyrklands í því skyni að stöðva siglingar flóttamanna þar um. Læknar án landamæra benda á að hundruð manna hafi drukknað í Eyjahafi nú þegar það sem af er ári. Það er augljóst að örvæntingarfullt fólk mun halda áfram að reyna að bjarga sér og sínum á bátskriflum á þessari leið. Ein afleiðingin af því sem kallað er eftirlit með ólöglegum siglingum verður að mínu mati að fólk mun leggja sig í enn þá meiri hættu og smyglarar rukka enn hærri upphæðir fyrir ferðina.

Óháð því hvort þessi aðgerð NATO sé skynsamleg eða mannúðleg vekur hún upp spurningar um eðli og hlutverk NATO. Það er engan veginn augljóst að það rúmist innan hlutverks og samþykktar bandalagsins að gegna hlutverki landamæralögreglu til að stöðva för fátæks og hrakins fólks.

Virðulegi forseti. NATO var á sínum tíma réttlætt sem hernaðarbandalag sem verja ætti ytri landamæri sín gagnvart mögulegum árásum óvinveittra ríkja eða hernaðarbandalaga. Við getum endalaust deilt um það hvort sú lýsing hafi verið rétt eða ekki en það er óralangur vegur frá því yfir í að bandalagið sé orðið tæki til að framfylgja stefnu einstakra aðildarríkja í flóttamannamálum. Þessar nýjustu vendingar sýna mikilvægi þess að við hér á Íslandi, við hér á Alþingi, ræðum NATO í ljósi þeirra breytinga sem (Forseti hringir.) virðast núna vera að verða á starfsemi bandalagsins.


Efnisorð er vísa í ræðuna