145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka upp þráðinn í dag um öryggismál ferðamanna á Íslandi. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég geri það að umtalsefni hér. Nú er svo komið að seinagangur og ráðaleysi stjórnvalda í þeim efnum er með slíkum eindæmum að ekki verður við það unað lengur. Það er einfaldlega óviðunandi að þeir sem málið varðar skuli ítrekað segjast vera að vinna að úrbótum, vinna að og bíða eftir áhættugreiningum til dæmis.

Hættan í Reynisfjöru hefur lengi verið öllum ljós. Þar hafa sex manneskjur dáið á fáum árum. Hættan á Sólheimajökli er líka öllum ljós. Þar dó ungur maður fyrir nokkrum árum og hefur fólk ítrekað komist í lífshættu síðan, nú síðast fyrir örfáum dögum. Það verða ítrekað köfunarslys í Silfru og fólk deyr þar. Fólk prílar á jökum á Jökulsárlóni. Allt þetta liggur fyrir og hefur legið fyrir lengi.

Nú eru líklega fjögur ár frá því að umhverfis- og samgöngunefnd þingsins fékk forsvarsmenn allra viðbragðsaðila til fundar við sig í kjölfar banaslyss á Sólheimajökli og kallaði þá sterklega eftir úrbótum og samstarfi milli aðila. Sú sem hér stendur man þetta vel því að ég var formaður nefndarinnar. Þá voru svörin líka þau að „verið væri að vinna að“ og „bíða eftir“. Hvað hefur gerst síðan? Þetta getur ekki gengið svona. Af hverju er ekki fyrir löngu byrjað að vinna við hættulegustu ferðamannastaðina? Af hverju þarf að vera að bíða eftir einhverju heildaráhættumati þegar bráðahættan á vissum stöðum er svo augljós?

Á sama tíma eykst stöðugt sá fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið (Forseti hringir.) og þær náttúruperlur sem við viljum laða fólk að en vörum ekki við. (Forseti hringir.) Þetta getur ekki gengið svona.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna