145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hagstofan safnar upplýsingum um skólastarf frá öllum grunnskólum landsins og birtir árlega. Í kjölfar birtingar talnanna skapast oft og tíðum umræða um að stöðugt fjölgi nemendum í sérkennslu og hvað sé til ráða.

Hugtakið sérkennsla hefur eitt og sér afar mismunandi merkingu í hugum fólks og að mínu viti má færa rök fyrir því að upplýsingaöflun Hagstofunnar um framkvæmd sérkennslu í grunnskólum sé miklu frekar mælikvarði á sveigjanleika í skólastarfi en mælikvarði á hversu margir nemendur þurfa eða fá viðvarandi stuðning eða sérkennslu.

Þetta þekki ég af eigin raun eftir að hafa sem skólastjóri svarað spurningum Hagstofunnar nokkrum sinnum. Formaður Félags íslenskra sérkennara, Sædís Ósk Harðardóttir, skrifaði grein í Morgunblaðið síðastliðinn laugardag þar sem hún fer ítarlega yfir það hvernig sveigjanlegir kennsluhættir og sveigjanlegt skipulag getur talist sem sérkennsla í skýrslum til Hagstofunnar. Má þar nefna að ef nemandi missir úr skóla vegna veikinda og fær aðstoð við að vinna upp eða ef nemandi fær einu sinni á skólagöngunni aukaaðstoð við að ná tökum á tiltekinni hreyfingu í sundi eða aðferð í stærðfræði telst hann með í fjölda nemenda sem fá sérkennslu eins og sá sem fær aðstoð þroskaþjálfa, sérkennara eða stuðningsfulltrúa alla daga.

Ég tel mikilvægt að rekstraraðilar skóla, menntamálaráðuneytið og/eða Menntamálastofnun og Hagstofan skoði til hvers eigi að nýta upplýsingar um sérkennslu og velji viðeigandi mælitæki. Auknum sveigjanleika í skólastarfi ber að fagna og með sveigjanleika má mæta mörgum nemendum án þess að til sérkennslu þurfi að koma. Þegar lagt er í kostnað við upplýsingaöflun er mikilvægt að safna viðeigandi gögnum þannig að þau nýtist skólasamfélaginu öllu.


Efnisorð er vísa í ræðuna