145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er á sömu nótum. Það er átakanlegt að lesa fregnir, ekki bara núna heldur oft áður, af skaða, jafnvel bana, ferðamanna sem eru á ferð um landið. Ég sé þetta allt saman í samhengi við þann víðtæka og djúpstæða skort á framtíðarhugsun og fyrirhyggju sem einkennir, að mér finnst, störf þessarar ríkisstjórnar — er reyndar líka djúpstæður vandi í íslenskum stjórnmálum en einkennir mjög störf þessarar ríkisstjórnar.

Fjölgun ferðamanna á Íslandi var löngu fyrirséð, Íslandi, því hafði verið spáð. Það vill svo til að það var samþykkt hér undir lok síðasta kjörtímabils, m.a. að ríku frumkvæði okkar í Bjartri framtíð, áætlun um að fjárfesta í uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu. Það átti að setja í þetta á þremur árum ríflega 2 milljarða. Þessari fyrri tilteknu fjárfestingu hefði verið lokið 2015, menn hefðu farið í þá uppbyggingu vegna þess að það lá fyrir, miðað við gögnin sem menn höfðu aðgang að, miðað við þær greiningar sem höfðu verið gerðar og miðað við augljósa hættu á íslenskum ferðamannastöðum, að þetta þurfti að gera. Hvað gerði þessi ríkisstjórn? Eitt það fyrsta sem hún gerði var að blása þetta allt saman af.

Þetta var fjárfesting sem hafði verið samþykkt. Hún var byggð á greiningu. Þetta var áætlun sem var fyrir hendi og við vitum það bara ef við stæðum núna og værum búin að fara í þessa uppbyggingu þá gætum við verið stolt af því að hafa kannski einu sinni verið vitur fyrir fram í íslenskum stjórnmálum. Þessi keppni í að vera vitur eftir á er ömurleg. Þarna vorum við virkilega vitur fyrir fram, en það var þessari ríkisstjórn um megn.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna