145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir prýðisræðu. Við ræðum hér breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, fjárhagsaðstoð og skilyrði þar um.

Ég held að við deilum ekkert um markmiðin í þessu — hvorki ég, hv. þingmaður né aðrir sem tekið hafa þátt í þessari umræðu — þ.e. að koma í veg fyrir að fólk festist í langvarandi atvinnuleysi og þeim vandræðum sem því fylgja og slæmu afleiðingum.

Hv. þingmaður kom ágætlega inn á það, eins og kveðið er á um í breytingum í frumvarpinu, að ekki verði farið í slíkar skilyrðingar nema að undangengnu mati þar sem gengið er tryggilega úr skugga um hvort viðkomandi einstaklingur sé vinnufær.

Hv. þingmaður spurði hreinlega hvernig það mat ætti að fara fram og hver ætti að vinna það mat. Ég ætla ekki að ræða þá spurningu hv. þingmanns út frá því hvort ég sé með skilyrðingum eða á móti vegna þess að hér er meðal annars verið að leysa mál um lagastoð fyrir því sem þegar er í gangi.

En ég ætla að spyrja hv. þingmann varðandi matið: Verðum við ekki að treysta á fagmennskuna í þessu eins og svo mörgu öðru? Verðum við ekki að treysta því að hér sé um að ræða ákveðna tegund af notendasamráði þar sem einstaklingurinn er í fyrirrúmi? Ég nefni þessi nýrri hugtök í þessari þjónustu, eins og hugtakið valdefling, þar sem einstaklingurinn er alltaf í fyrirrúmi í slíku mati.