145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það að mjög mikilvægt er að efla sjálfstraust og efla valdeflingu hvers einstaklings fyrir sig og vinna með það. Það gerir okkur að samfélagi að hugsa þannig um okkar veikasta fólk eða fólk í erfiðri félagslegri stöðu, bæði fjárhagslega og kannski andlega; fólk sem getur ekki séð sjálfu sér farborða með þeim hætti sem við flest teljum vera eðlilegt, þ.e. að geta unnið fyrir sér; fólk sem er komið á þann stað að leita til sveitarfélags síns um stuðning, vonandi tímabundinn, til þess að geta aftur haldið út í lífið.

Ég held að það álag sem fylgir því að þurfa að efla virkni sína undir slíkri pressu geti leitt til þess að viðkomandi einstaklingur fari út af sporinu. Ég tel því að það sé hættulegt að vinna með virkniúrræði og vinnumarkaðsúrræði á þessum stað þannig að það sé eins og svipa yfir einstaklingnum ef hann misstígur sig.

Oftar en ekki er fólk kannski misupplagt, þunglynt og annað því um líkt, og á það þá að missa fjárhagsaðstoðina í allt að tvo mánuði eða jafnvel sex mánuði? Það er gífurleg pressa fyrir fólk sem er statt þarna, fólk sem á oft í andlegum erfiðleikum líka út af því að það er komið í þá stöðu að treysta á aðra en sjálft sig akkúrat þarna í lífinu.