145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir svarið. Ég ætla að halda áfram hér í seinna andsvari að ræða þetta út frá fagmennskuhlutanum.

Ef marka má umræðuna og ræðu hv. þingmanns þá er í raun ekki deilt um þá kröfu sveitarfélaganna að það sé samræmi og heimild í lögunum og lagastoð fyrir því sem þegar er í gangi, þ.e. einhvers konar skilyrðingar og skerðingar.

Ég ætla fyrst að koma að átaksverkefni, sem nefnt er í greinargerð með frumvarpinu, í Hafnarfirði sem hefur tekist mjög vel. Ég spyr hv. þingmann hvort það séu ekki slík virkniúrræði sem við eigum að einblína á og þá möguleika sem við sköpum fyrir einstaklinginn í þessu notendasamráði, sem við kjósum að kalla svo, og þessari samvinnu milli fagfólks sveitarfélaganna, einstaklingsins, stofnana eins og Vinnumálastofnunar o.fl. sem eru að vinna að því að virkja einstaklinginn og aðstoða hann út úr þeim ógöngum sem hann er kominn í. Sérstaða einstaklingsins má auðvitað aldrei gleymast í þessu vegna þess að aðstæður eru svo mismunandi eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni.

Ég ætla að spyrja hvort ekki sé mikilvægt og hvort hv. velferðarnefnd þurfi ekki að einblína á það í vinnu sinni, af því að það tókst ekki hér á síðasta kjörtímabili að klára þetta mál, hvaða fagmennskuúrræði eru til staðar og hvernig eigi að vinna með það frekar en að vera að einblína á þessu neikvæðu formerki. Það er sannarlega ekki, ef maður les inntakið í frumvarpinu, verið að setja fram einhverjar hótanir og refsingar.