145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir uppbyggilega og áhugaverða ræðu. Ég get ekki að því gert að ég velti fyrir mér hvort þá sé þörf á þessu frumvarpi með hliðsjón af þeirri dæmisögu sem hv. þingmaður nefndi úr Hafnarfirði. Þar hefur verið verkefnið Áfram sem hv. þingmaður talaði um og virðist hafa náðst mikill árangur í kjölfar þess.

Mér þykir 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga mjög skýr. Mér þykir lagaheimildin til að fara í verkefni eins og þau sem hv. þingmaður talaði um heldur skýr og velti þess vegna fyrir mér hvort þá sé einhver nauðsyn að bæta við 21. gr. a sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu eða þörf á því að ráðherra gefi árlega út einhverjar leiðbeiningar til sveitarstjórna. Ég velti fyrir mér þörfinni á þessu frumvarpi með hliðsjón af því sem hv. þingmaður var að tala um. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvað nákvæmlega í því frumvarpi sem við ræðum hér mundi henta til þess að framkvæma verkefni á borð við Áfram í Hafnarfirði eða önnur sambærileg verkefni sem ég er viss um að hv. þingmaður gæti tekið til.