145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Sú mikla umræða sem hefur orðið um þetta frumvarp og var hér áður en haldið var í kjördæmaviku er ástæða þess að ég kveð mér hljóðs. Ég á ekki sæti í velferðarnefnd sem mun taka málið til meðferðar og vil því koma nokkrum sjónarmiðum mínum á framfæri í von um að kannski verði litið til þeirra í umfjöllun nefndarinnar. Það er oft svo að mál koma frá nefndum inn í 2. umr. og þá er kannski svolítið seint í rassinn gripið, ef ég má orða það svo, fyrir þá sem ekki sitja í viðkomandi nefnd að tjá skoðanir sínar.

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er nauðsynlegt öryggisnet þó að ég haldi reyndar að við vildum helst að það þyrfti ekki að vera til staðar vegna þess að við vildum að almannatryggingakerfið, vítt skilgreint, sjúkrasjóðir vinnumarkaðarins og önnur úrræði hvað sem þau heita, sem standa fólki til boða þegar það á í erfiðleikum, væru svo pottþétt að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga væri óþörf. Svo er ekki. Þess vegna þarf umgjörð um hana að vera nokkuð skýr svo landsmönnum verði sem minnst mismunað vegna þess að fjárhagsaðstoð og reyndar félagsaðstoð er misjöfn eftir sveitarfélögum. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, og það hefur verið nefnt að kannski ætti að setja viðmið um hver lágmarksfjárhagsaðstoð eigi að vera. Þá kemur hins vegar á móti að sveitarfélögin ráða sér sjálf og þess vegna þykir það kannski ekki vera ríkisvaldsins að ákveða hvert viðmiðið eigi að vera.

Í lögum um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er enginn bókstafur um hvort binda megi hana einhverjum skilyrðum. Skilyrðingar eins og þær eru kallaðar eru ekki leyfðar, en þær eru heldur ekki bannaðar, virðulegi forseti. Hitt er staðreynd að eftir því sem rannsóknir sýna — ég hef ekki séð það hjá ráðuneytum, ég hef hins vegar séð það í háskólaritgerðum sem hafa verið skrifaðar — þá skilyrða öll sveitarfélög fjárhagsaðstoð á einn eða annan hátt. Það eitt og sér er auðvitað ekki ástæða til þess að leiða skilyrðingar í lög. En á hinn bóginn væri hægt að gera kröfu til sveitarfélaganna um að gefa ríkisvaldinu upplýsingar um þær ef þær eru hluti af kerfinu. Þá væri hægt að fylgjast með þeim, bera þær saman og fylgjast með því hverjar þær eru á hverjum stað. Væntanlega er óeðlilegt að krefja sveitarfélögin um slíka skýrslugjöf ef þær eru á gráu svæði. Þess vegna held ég að það eitt að setja lög um þessi efni mundi lyfta því upp á yfirborðið hvernig þeim er háttað.

Virðulegi forseti. Ef menn vilja ekki hafa þessar skilyrðingar þá vil ég segja það að mér finnst skilyrðingar svolítið vont orð um þetta vegna þess að eins og kom fram hjá ræðumanni næst á undan mér viljum við væntanlega flest miklu frekar tala um hvata til sjálfshjálpar. Ég fagna því ef fjárhagsaðstoð sveitarfélaga minnkar en ekki af því að þá þurfa sveitarfélögin ekki að eyða jafn miklum peningum í fjárhagsaðstoð heldur fagna ég því vegna þess að þá er búið að hjálpa fólki. Því hefur annaðhvort verið komið yfir í almannatryggingakerfið þar sem það á sinn bókstaflega rétt og getur gengið að honum í hvert sinn, eða að það hefur komist í vinnu og komist upp úr þeim erfiðleikum sem gera að verkum að menn lenda í þessu síðasta öryggisneti. Ef menn vilja ekki að sveitarfélög setji skilyrðingar af þessu tagi þá spyr ég sjálfa mig: Er þá ekki bara rétt að við bönnum þær? Er það ekki réttara að banna þær heldur en að leyfa sveitarfélögum að vera með þær á gráu svæði? Ég velti þessu fyrir mér.

Önnur staðreynd er sú að annars staðar á Norðurlöndunum — það eru þau lönd sem við viljum helst bera okkur saman við og náttúrlega sérstaklega þegar kemur að velferðarmálum, við erum kannski sum meira fyrir það en önnur, en ég er ein af þeim sem vilja helst ekki að við stöndum Norðurlöndunum að baki í velferðarmálum — er fjárhagsaðstoð sveitarfélaga alls staðar í lögum. Þar er mælt fyrir í lögum hvernig hún á að vera, hún er í lagaramma. Það eitt og sér, virðulegi forseti, er ekki ástæða fyrir því að við eigum að taka það upp heldur eigum við að kanna hvernig það hefur reynst á þessum stöðum, hvort það hafi reynst illa. Það hefur verið sagt hér í ræðu að hópar verði meira jaðarsettir eins og það er kallað en þeir hafa verið fyrr. Ef sú er raunin og það hefur verið þannig á Norðurlöndum að þeir sem detta út af fjárhagsaðstoð verði meira jaðarsettir, þá eigum við að beina athygli okkar að því hvernig við getum hjálpað því fólki. Þá eigum við líka að segja að við eigum ekki að skerða fjárhagsaðstoð hjá nokkurri manneskju nema að það sé alveg klárt að fagaðilar eins og það er kallað, félagsráðgjafar, sálfræðingar, þeir sem sinna þessum verkefnum í sveitarfélögunum, hafi farið mjög gaumgæfilega í gegnum þetta. Síðan eigum við að notfæra okkur fámennið, notfæra okkur það nú einu sinni að við erum fámenn og við eigum að geta fylgt betur eftir hópum sem eru jaðarsettir en oft gerist meðal þjóða.

Síðan velti ég því stundum fyrir mér hvort í rauninni sé eins langt á milli þeirra sem tala um skilyrðingar og hinna sem vinna við þetta í sveitarfélögunum og menn vilja vera láta. Það segir til dæmis í c-lið 2. gr. frumvarpsins að til að umsækjandi eigi rétt á fjárhagsaðstoð þá eigi hann að sækja um og taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, þar með talið námsúrræðum. Er þetta skilyrði? Er þetta ekki hvatning? Getur það ekki verið hvatning fyrir ungt fólk að sveitarfélögin bendi á eða bjóði fram eða hvað við köllum það einhvers konar námsúrræði eða vinnumarkaðsaðgerðir? Er það ekki hvatning? Og er ekki réttara að orða frumvarpið allt í þessum jákvæða tóni frekar en að láta eins og um refsivönd sé að ræða? Þá velti ég fyrir mér þar sem stendur í a-lið 2. gr. um að „umsækjandi hafi frumkvæði að starfsleit“, taki þátt í henni þegar honum er beint inn á þá braut. Vissulega er rétt að ef fólk hefur dottið út úr skóla eða eitthvað slíkt þá er það ekki mjög uppburðarmikið og þarf að hjálpa því. En þá getum við kannski sagt að skilyrðingin felist í því að fólk taki þátt í því sem það er hvatt til að gera og það getur gert. Auðvitað erum við ekki að tala um fólk sem veikt vegna þess að það er búið að sortera það frá, ef ég má orða það svo. Það koma inn beiðnir og þeir sem eru veikir fara á sinn stað og lenda ekkert í þessum skilyrðingum.

Mig langar að vitna í ágæta grein eftir Heiðu Björg Hilmisdóttur sem er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún skrifaði hana í DV um daginn, um fjárhagsaðstoð í Reykjavík, og þar kemur fram að þeim sem þiggja fjárhagsaðstoð fækkaði verulega árið 2005. Heiða Björg segir, með leyfi forseta:

„Árangurinn sem hefur náðst má að hluta til rekja til betra atvinnuástands í þjóðfélaginu, en ekki síður til markvissrar vinnu velferðarsviðs í að bæta þjónustu við fólk sem sækir um fjárhagsaðstoð af einhverju tagi, en kannski sérstaklega þá sem þurfa fjárhagsaðstoð til að framfæra sér þar sem engar aðrar tekjur eða eignir eru til staðar. Hver og einn einstaklingur hefur sínar ástæður fyrir að þiggja fjárhagsaðstoð og því þarf að vinna með hverjum og einum í að finna hans styrkleika og horfa á þá frekar en veikleikana og finna möguleikana sem viðkomandi hefur í samfélaginu.“

Svo skýrir hún frá því hvernig umsóknirnar eru flokkaðar og reynt er að finna út hvað gæti verið við hæfi hvers og eins. Ég tel að við eigum að leggja áherslu á þetta og skrifa það inn í frumvarpið þannig að öll sveitarfélög verði að fara eftir því.

Eitt sem er tekið sérstaklega fram í frumvarpinu kemur fram í 2. gr., en þar segir: „Óheimilt er að skerða fjárhagsaðstoð sem er sérstaklega vegna framfærslu barna eða ætluð börnum samkvæmt reglunum.“

Virðulegi forseti. Þessu á að breyta og segja: Óheimilt er að skerða fjárhagsaðstoð þar sem börn eru á heimili. Ekki neitt „ef eitthvað“, það er bara bannað. Það á að taka þetta út, fara ekki í neina launkofa með það.

Ég held að ekki þurfi að vera jafn óskaplega langt á milli fólks í þessu efni og hefur virst í umræðunni. Því miður er það svo, það er svoleiðis í öllum kimum þjóðfélagsins, að stundum, í einstaka tilfellum þegar allt annað þrýtur, þarf kannski að segja „ef þú gerir ekki eitthvað“. Það er hjá Reykjavíkurborg, þar eru alltaf einhverjar skerðingar eða um 20%. Sem betur fer er fólk ekki skert nema að meðaltali held ég í einn og hálfan mánuð ef það kemur til eða eitthvað svoleiðis. En það þarf samt að nota það.

Virðulegi forseti. Ég tel mig nú ekki vera vonda manneskju, en ég … (Gripið fram í: Við erum klár á því.) Takk fyrir. En ég get ekki lagst alfarið gegn þessu frumvarpi. Ég get það ekki. Á hinn bóginn vildi ég sjá hluti þarna inni eins og þá að tekið sé af skarið með það að fjárhagsaðstoð verði ekki skert á heimilum þar sem eru börn. Ég vildi líka sjá jákvæðari nálgun að þessu vandamáli — eða vandamáli, þessari þjónustu við fólk sem við veitum, við eigum ekki að kalla allt vandamál. Hérna erum við að reyna að efla fólk vegna þess að það er náttúrlega ekkert ömurlegast að vera á fjárhagsaðstoð. Það er ömurlegt að vera í þeim aðstæðum að þurfa vera á fjárhagsaðstoð. Við eigum að reyna að hjálpa fólki upp úr þeim. Það er númer eitt, tvö og þrjú að mínu mati.