145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:43]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Það er gott að heyra að menn hafi í hyggju að vinna þetta hratt og vel í nefndinni þannig að við getum tekið afstöðu til þeirra breytinga.

Ég tel mikilvægt að nefndin fari vel yfir þetta, sé tilbúin til að skoða breytingar á frumvarpinu eins og eðlilegt er, til þess að við getum gert þetta sem allra best fyrir þá sem munu síðan fá þá þjónustu sem þeir eiga rétt á hjá sveitarfélögunum og síðan Vinnumálastofnun eins og er verið að ramma þarna inn.

Ástæðan fyrir því að ég vildi koma hingað upp er sú, eins og hv. þingmaður var að tala hér um, að það er áhyggjuefni með ákveðna hópa af yngra fólkinu okkar. Á sama tíma er mikilvægt að hafa í huga hvað rannsóknir segja okkur um hve stórum hluta þessa unga fólks okkar líður vel og er að gera góða hluti. Hvort sem við horfum til áfengis- og tóbaksneyslu eða fíkniefnaneyslu þá höfum við náð verulegum árangri í því að bæta líðan barnanna okkar.

Eins og þingmaðurinn benti á þá erum við með einstaklinga sem hefur ekki gengið jafn vel. Við sjáum hvernig menn eru að fóta sig við að ná utan um þá nýju tækni sem netið er, samfélagsmiðlarnir, og hvaða áhrif það hefur á samskiptamunstur barnanna okkar. Bandarískar rannsóknir hafa til dæmis bent til þess að meðal bandarískra barna séu hópar sem eyða meiri tíma fyrir framan sjónvarpið eða fyrir framan tölvu en í samskipti við foreldra sína. Í heildina litið hefur á síðustu áratugum fækkað um einn vin í þeim hópi sem fólk á sem nána vini. Það eru svona hlutir sem þyrfti að huga að.(Forseti hringir.)

En þegar kemur að atvinnuþátttöku ungmenna hér á landi þá er hún enn með því allra besta sem þekkist í OECD-ríkjunum. Við sjáum það líka í nýjustu tölunum að atvinnustaðan er að batna enn frekar þó að við séum ekki alveg komin þangað sem hún var fyrir hrun.