145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:48]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á nýlegum fundi vinnumarkaðsráðherra í París hjá OECD-ríkjunum kom fram að það er alveg sama á hvaða mælikvarða við skoðum íslenskan vinnumarkað að þá eru Íslendingar að vinna. Við erum annaðhvort í fyrsta eða öðru sæti, í einstaka tilvikum þriðja, þegar verið er að bera okkur saman við önnur ríki. Við sjáum það svo sannarlega hjá unga fólkinu okkar.

Við sjáum líka, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns, að stór skref hafa verið stigin fram á við — nefnd voru störf í sjávarútvegi — ekki hvað síst nú á síðasta ári við að bæta kjör þeirra sem eru með lægstu launin. Áhersla hefur verið lögð á það hjá verkalýðshreyfingunni. Það er að skila árangri því að þær tölur sem við höfum fengið frá Hagstofunni, óháð því hvaða mælikvarða við skoðum varðandi fátækt, hvort sem við erum að tala um svokallaðan Gini-stuðul eða skort á efnislegum gæðum, sýna að við erum að ná verulegum árangri og (Forseti hringir.) stöndum þar líka mjög vel í samanburði við aðrar þjóðir þrátt fyrir hrunið. A síðastliðnum árum höfum við síðan svo sannarlega verið að snúa þessu við.