145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:49]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra í því að við erum að gera margt gott og á vinnumarkaði er margt ungt fólk; við eigum mikið af glæsilegu ungu fólki. Ég hræðist ekkert framtíðina ef við bara hugsum um það og styrkjum velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið og allt þar fram eftir götunum.

Ég er samt hræddur um hópinn sem er utanveltu og tel að við getum gert mun betur í því. Ég veit að við stöndum mörgum þjóðum framar í svo mörgum þáttum mannlífsins enda væri annað skrýtið í þessu landi sem er svo ríkt af mannauði og auðlindum og í öllu. Við erum með gott skólakerfi sem við getum gert enn betra. Ég tel að með því að auka mjög mikið samfélagskennslu í skólum, leggja enn meiri áherslu á hana, þá gætum við gert enn betur hvað varðar ungmenni.