145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég vona svo sannarlega að hv. velferðarnefnd fái upplýsingar um þennan hóp því að ég hef sagt það hér áður og segi það aftur að ég hef áhyggjur af því að þarna sé verið að ýta mjög viðkvæmum hópi enn lengra út á jaðarinn. Það er slæmt fyrir þá einstaklinga sem lenda í því, en það er líka slæmt fyrir samfélagið allt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann talaði um að hann væri jákvæðari gagnvart málinu, fannst mér mega skilja af ræðu hans og vildi nálgast málið á jákvæðan hátt: Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að með því að sníða vankanta af frumvarpinu þá sé í lagi að skilyrða þá grunnfjárhæð sem sveitarfélögin veita til fjárhagsaðstoðar? Ég spyr hvort (Forseti hringir.) hv. þingmanni finnist í lagi að sveitarfélögin fari í slíkar aðgerðir, bara ef frumvarpið er bætt.