145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:57]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður á sæti í velferðarnefnd. Hann þekkir þetta mál mjög vel og kom inn á mjög margt í ræðu sinni. Það sem vakti athygli mína, af því að ekki náðist að klára málið á síðasta þingi, var að hv. þingmaður mat það svo að ekki bæri mikið í milli. Markmiðin eru skýr, þ.e. að setja fram ákvæði sem snúa að reglum sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð og eyða þeirri óvissu sem verið hefur, af því að þegar eru einhvers konar skilyrðingar og skerðingar hjá þeim sveitarfélögum sem veita fjárhagsaðstoð. Það þarf auðvitað líka að tryggja jafnræði þar á milli.

Mig langar til að fara yfir það, af því að ekki náðist að leysa það hér, hvort það geti átt sér stað í forminu. Hv. þingmaður er bjartsýnn á að hægt sé að ná einhverri lausn í þessu máli. Þá ætla ég að vísa til umsagnar félagsvísindasviðs Háskóla Íslands um málið þar sem komið er inn á virðingu fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings. Í umsögninni segir að mikilvægt sé að horfa til fagmennskuhlutans þegar verið sé að meta vinnufærni eða þá skort á henni og lagt til að slíkt mat verði unnið af fagfólki og að skilað verði skriflegum rökstuðningi tveggja fagaðila. Því er beint til velferðarnefndar. Sér hv. þingmaður það sem hluta af lausninni?