145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:59]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Já, ég skal viðurkenna fúslega fyrir honum að það er dálítið síðan ég las umsagnir um málið, það var á síðasta þingi. Mig rámar í þessa umsögn. Já, það gæti virkilega verið hluti af því. Hér kom fram spurning áðan um hvernig eigi að meta færni manns. Auðvitað er það mjög jákvætt. Auðvitað á fagfólk á sviði félagsþjónustu að gera það, fólk sem hefur með þessi mál að gera. Ég treysti því alveg að þannig sé það. Það er þannig, held ég, í öllum sveitarfélögum sem ég þekki til að það fólk sem metið hefur þá sem þiggja fjárhagsaðstoð er fagfólk. Auðvitað er líka hægt að leita út á við. Það þarf að fá læknisvottorð og ýmislegt annað og faglegt mat frá lækni til þess að meta hvort einstaklingurinn sé fær til þess að vinna.

Eins og ég kom inn á áðan eru margir líkamlega færir til þess að vinna en kannski ekki andlega. Þeir þurfa þá kannski að fá enn meiri aðstoð. Ég hef kynnst því sjálfur. Ég þekki einstaklinga sem berjast við alvarleg andleg veikindi eftir að hafa verið atvinnulausir lengi en líkamlega eru þeir í standi til að vinna. Auðvitað þarf að vera faglegt og gott mat sem segir til um hverjir eru til þess hæfir að fara út á vinnumarkaðinn og kannski þurfa þeir önnur úrræði. Eins og þú komst inn á áðan snýst þetta allt um mannlega reisn og réttinn til lífs og að við komum fram (Forseti hringir.) við fólk af virðingu.