145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[16:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli framsögumanns þá er þetta mál afgreitt af öllum nefndarmönnum. Ég vil nota tækifærið hér til að byrja með og þakka framsögumanni, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, fyrir að vinna þetta vel og leggja sig fram um að ná sátt í nefndinni um breytingar, sem gerði að verkum að við gátum öll staðið að þessu máli. Ég kem hér upp bara örstutt til þess að lýsa afstöðu Samfylkingarinnar.

Við erum sammála því að fólk eigi að hafa frelsi til að sækja heilbrigðisþjónustu til annarra Evrópuríkja og bendum jafnframt á að flestir vilja fá heilbrigðisþjónustu í sínu heimalandi, en það getur verið, vegna fjölskylduaðstæðna og annarra ástæðna, mikilvægt fyrir fólk að geta leitað þessarar þjónustu annars staðar. Auðvitað stendur þessi Evróputilskipun mun nær því fólki sem býr þannig í heimaríki sínu að það býr nálægt landamærum við önnur ríki. Við erum náttúrlega eyja úti í hafi sem leiðir til þess að undir venjulegum kringumstæðum ætti ekki að vera mikil ásókn í þetta, en við teljum mikilvægt að fólk geti sótt þessa þjónustu annars staðar en í heimalandi sínu.

Við teljum líka að þetta ætti að skapa þann þrýsting á stjórnvöld að halda biðlistum í lágmarki. Þess ber að geta að nú eru ekki eðlilegar aðstæður hér á landi. Það eru gríðarlegir biðlistar, bæði uppsafnaðir vegna niðurskurðar en ekki síður vegna verkfalla. Það var þess vegna sem landlæknir lýsti yfir miklum áhyggjum af því hvað gæti gerst ef frumvarpið yrði samþykkt án einhverra heimilda til hindrana. Þess vegna er komið inn þetta ákvæði um að ráðherra skuli með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd greinarinnar, þ.e. um endurgreiðslu á kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og hvenær skuli vera um fyrirframsamþykki fyrir endurgreiðslu að ræða. Það ber að líta til þess að núna, þegar svo margir hafa beðið allt of lengi eftir því að fá til dæmis liðskipti vegna mjaðma og hnjáa, þjónusta sem við viljum að fólk fái áður en það verður örkumla, getur þessi lagabreyting leitt til þess að það margir færu erlendis að mati landlæknis að það mundi koma niður á veitingu heilbrigðisþjónustu hér á landi, því að þá fara fjármunir út til þeirra sem fara og sækja þjónustuna erlendis, þurfa ekki að sæta þeim biðlistum sem hér eru. Ef við tryggjum ekki nægilegt fjármagn inn í kerfið þurfa þeir sem kannski eru í brýnustu þörf en geta ekki farið utan að bíða enn lengur. Þess vegna töldum við gríðarlega mikilvægt að fá inn þetta ákvæði sem gerir að verkum að heilbrigðisráðherra, sem verður nú að fylgjast mjög náið með því hvernig þetta þróast, getur þá gripið inn í ef fjármunir eru að renna til þeirra sem eru kannski ekki í helsta forgangi fyrir aðgerðir.

Það hlýtur að vera sameiginlegt keppikefli okkar að það séu ekki biðlistar eins og nú eru í íslensku heilbrigðiskerfi. Þetta er algjörlega óviðunandi. Við sjáum ákall þjóðarinnar núna um að auka fjármuni til heilbrigðiskerfisins. Það er nauðsynlegt til þess að við búum ekki við kerfi sem mætir ekki þörf fyrir heilbrigðisþjónustu; fólk á besta aldri, fólk í vinnu, er hætt að komast til vinnu því það getur ekki gengið vegna kalkaðra liða, en bíður og bíður eftir skurðaðgerðum.

Ég vil líka taka fram að Öryrkjabandalagið lýsti yfir áhyggjum af því að þeir sem eru í Öryrkjabandalaginu þurfi oft einhvern með sér á ferðalögum, þurfi aðstoð, og hvatti til þess að heimilt yrði að fá kostnað við heilbrigðisþjónustu fyrir fram greiddan í vissum tilvikum út af fjárhagsaðstöðu, en líka að það væru greiðslur vegna ferðakostnaðar og slíkt. Nefndin treysti sér ekki til að koma með breytingartillögu hvað það varðar, en hefur komið því þannig fyrir að kveðið verði á um þetta í sérstakri reglugerð, því þessi tilskipun er fyrst og fremst til þess ætluð að auka möguleika fólks á að sækja sér þjónustu. Hún á ekki að auka á mismunun. Við teljum að með þeim breytingum sem gerðar hafa verið dragi úr þeirri hættu og að við höfum mætt áhyggjum sem landlæknir viðraði við nefndina.

Ég ætla að láta máli mínu lokið og endurtaka þakkir til framsögumanns fyrir góða vinnu.