145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[16:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum, sjúkratryggingar og lyfjalög og heilbrigðisþjónusta yfir landamæri, er mál sem maður er óhjákvæmilega hlynntur þegar maður rétt rennir yfir það. Síðan flækist málið pínu ef maður skoðar það nánar vegna ábendinga sem hafa komið frá aðilum sem þekkja til þess. Í þeim felst helst að með því að íslenska ríkið greiði fyrir aðgerðir sem eru framkvæmdar erlendis minnki það fé frá íslenska ríkinu sem fari til heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Það sé alla vega hætt við því. Á þetta var bent og þótti mér það hið áhugaverðasta vandamál. Þó verð ég að taka undir það með hv. 4. þm. Norðaust., Steingrími J. Sigfússyni, að breytingartillagan sem kemur frá hv. velferðarnefnd er mjög til bóta og ég fæ ekki betur séð en hún komi til móts við þær áhyggjur með fullnægjandi hætti og því er um mjög farsæla lendingu að ræða á þessu áhugaverða máli.

Mér finnst líka alveg þess virði að ígrunda við svona tilefni hlutverk ríkisins og einkaaðila í heilbrigðismálum almenn, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á. Það er auðvitað þannig, hvort sem fólki líkar betur eða verr, þegar kemur að heilbrigðismálum að þar þarf alltaf að forgangsraða peningum og þar af leiðandi að einhverju leyti að forgangsraða lífum. Það er auðvitað það sem gerir málaflokkinn afskaplega erfiðan og eðlilega umdeildan.

Mér finnst það áhugaverð skilaboð sem við eigum að taka til okkar að þetta sé hluti af fjórfrelsinu í EES og þetta sé hluti af EES, að við þurfum í kjölfarið að velta þessari spurningu fyrir okkur. Mér finnst það reyndar holl spurning. Ég óttast hana ekki vitund, hvað þá umræðu um hana, hins vegar þykir mér algjörlega tilefni til að velta þessu fyrir sér.

Að því sögðu ætla ég ekki að halda langa ræðu heldur langaði mig að drepa aðeins á það að þetta væri hið áhugaverðasta mál og sömuleiðis að ég sé fram á það að óbreyttu að styðja málið með breytingartillögum hv. velferðarnefndar, sem ég tel að hafi tekið á málinu með miklum glæsibrag. Að svo stöddu er ekki mikið meira um þetta mál að segja sem var ekki tíundað af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni svo ég lýk máli mínu.