145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. velfn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þetta eru áhugaverðar og þarfar umræður. Ég get tekið undir með þeim ræðumönnum sem hér hafa talað að okkur ber náttúrlega fyrst og síðast að gæta að því að þeir fjármunir sem þurfa að fara í heilbrigðiskerfið fari þangað. Hins vegar munum við sjálfsagt oftar en ekki takast á um það hvenær eitthvað er nægjanlegt og hvenær ekki.

Mig langar aðeins persónulega, virðulegi forseti, að ræða þetta mál af því að ég var framsögumaður í málinu. Ég er mjög sátt við þá tillögu sem okkur tókst að ná sameiginlega í velferðarnefnd en engu að síður langar mig að velta upp nokkrum sjónarmiðum.

Í fyrsta lagi erum við í EES-samstarfi og við erum sömuleiðis með tillögu inni til aðildar að Evrópusambandinu og hvort sem hún hefur verið dregin til baka eður ei, þá vorum við einu sinni á þeirri vegferð. Þess vegna er þetta meðal annars komið inn á okkar borð, vegna samningsins um EES. Það er stundum sagt að þegar við Íslendingar tökum upp EES-tilskipanir séum við kaþólskari en páfinn í því. Það má vel vera að svo sé í ýmsum málum, en ég held samt að oftar en ekki reynum við að skoða þær með tilliti til þess hvað kemur samfélagi okkar best hverju sinni. Kannski erum við í sumum málum kaþólskari en páfinn en öðrum ekki. Þegar ég segi kaþólskari en páfinn þá á ég við þegar við tökum upp reglurnar frá EES nær óbreyttar og aðlögum þær ekki að samfélagi okkar. Ég nefni eitt dæmi sem er gamalt og gott, fráveitumál fyrir árið 2005 þegar öll sveitarfélög áttu að vera búin að aðlaga fráveitumál sín að kröfum sem gerðar voru á stöðum í Evrópu sem eru víðs fjarri landfræðilegri stöðu Íslands. Þá tókum við upp þær EES-tilskipanir hráar og vorum kaþólskari en páfinn og allt hans embættisfólk, enda erum við enn þá að vinna úr fráveitumálum hjá ýmsum sveitarfélögum í þessu ágæta landi. Þannig að það er ýmislegt í þessu. Ég er því mjög glöð að við skulum vinna með öðrum hætti þegar kemur að einstaka EES-tilskipunum og ekki taka þær upp þegjandi og hljóðalaust eins og þær koma frá þessu annars ágæta sambandi.

Í þessu tilviki er fyrst og síðast um rétt sjúklings að ræða. Hver er réttur hans til þess að sækja sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri ef þess gerist þörf?

Við ræðum hér að við séum í vanda með heilbrigðiskerfið og það er hverju orði sannara. En við erum búin að vera það ótrúlega lengi og við höfum kannski ekki alltaf átt færustu sérfræðinga til þess að vinna að ýmsum aðgerðum sem nauðsynlegar hafa verið til þess að fólk fengi bót meina sinna og þurft að senda einstaklinga utan til lækninga. Það hefur verið af hinu góða.

Mig langar að líta á þetta ekki bara sem ógn við kerfið okkar heldur líka sem tækifæri. Þetta þýðir að hingað geta líka komið sjúklingar erlendis frá til þess að fá aðstoð í íslensku heilbrigðiskerfi vegna þess að þrátt fyrir allt er íslenskt heilbrigðiskerfi þokkalega vel statt miðað við mörg önnur heilbrigðiskerfi í heiminum. Það hafa verið gerðir samningar og menn koma hingað í ýmsar aðgerðir vegna þess að ekki er hægt að veita þær í þeirra eigin heimalandi. Þarna eru því líka tækifæri fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu, eins og fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, til þess að nýta hvort tveggja tækjakost og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks okkar í aðgerðum sem sumar hverjar eru mjög sérhæfðar og þarfnast kannski fleiri aðgerða til þess að ná flugi, ef má þannig að orði komast. Ég vildi gjarnan að við horfðum til þess að bæði getur þetta ógnað kerfinu, en getur líka veitt því tækifæri. Okkur hættir stundum til að mínu mati að festast í því að verja kerfið í staðinn fyrir að það geti hugsanlega opnast og hægt sé að nýta fleiri tækifæri en blasa kannski við á hverju og einu augnabliki þegar manni er mikið niðri fyrir.

Við töluðum um biðlista. Það hefur verið rætt um að aðgerðum mætti jafnvel útvista til annarra sjúkrahúsa en Landspítalans þar sem bæði mannafli og tæki eru til. Það er vel. Við skulum heldur ekki gleyma að hér eru sjálfstætt starfandi læknar sem geta líka tekið við og þeir eru innan heilbrigðiskerfisins og þeim er greitt innan heilbrigðiskerfisins. Tökum dæmi: Það geta ekki allar ristilspeglanir farið fram á Landspítalanum. Þær eru framkvæmdar í Mjódd meðal annars og af sjálfstætt starfandi læknum, en hluti sjúkratrygginga er hátt í 92%, sjúklingurinn sjálfur greiðir brotabrot, innan við 10%, ef hann fer til slíks aðila. Sömu sögu er að segja ef maður fer í aðgerð á hné eða beinaðgerð á fótum eins og ýmsar konur fara í til þess að láta lagfæra á sér stór bein sem ganga út úr tám, þá er hægt að fá það gert hjá sjálfstætt starfandi læknum en sjúkratryggingar taka að hluta til þátt í því. Það er því möguleiki innan kerfisins. Okkur er að mínu mati svolítið tamt að líta á Landspítalann sem alfa og omega allrar heilbrigðisþjónustu í landinu, en svo á ekki að vera. Það er fjöldinn allur af fleiri sjúkrahúsum vítt og breitt um landið sem geta tekið við verkefnum og unnið á biðlistum sem bæði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir nefndu.

Ég held að með því að líta þannig á að í þessu felist jafnt ógnir sem tækifæri, styrkleikar og veikleikar, ef við getum orðað það svo, þá sé hægt að horfa til þess sem okkar frábæra heilbrigðisstarfsfólk getur tekið að sér, ef það er ekki eingöngu tímaskortur sem ræður för við biðlista heldur líka að ekki liggi fyrir aukið fjármagn, og þá sé hægt að horfa á þetta sem ákveðin tækifæri. Ég er ekki að tala um, virðulegur forseti, að almennt eigum við að markaðsvæða heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi með því að það eigi að fara að selja sig erlendis með einum eða öðrum hætti, en við eigum engu að síður að horfa á þetta sem tækifæri, því hér starfar frábært fólk. Til þess að við getum byggt upp heilbrigt og flott heilbrigðiskerfi í margþættu og flóknu umhverfi tækni og mannauðs, þá vonast ég til þess að okkur takist að líta á þetta sem tækifæri fyrir heilbrigðisstarfsfólk okkar til þess að sinna enn frekar þjálfun í aðgerðum og nýta betur mannauð og tæki.