145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[17:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kemst ekki hjá því að minnast á að í þessari ágætu tillögu, sem hefur allan minn stuðning, kemur fram að Japan og Ísland eigi ýmislegt sameiginlegt í sambandi við lýðræði og mannréttindi og ýmsa góða hluti; eitthvað sem ég gat hins vegar ekki fengið séð í þingsályktunartillögu um fríverslunarsamning við Kína. En það er nú ekki það sem við erum að ræða hér heldur þessi ágæta tillaga og ég ítreka að hv. þingmaður má búast við stuðningi af minni hálfu við hana, sér í lagi vegna þess að um er að ræða tvö ríki sem hafa sameiginlega grundvallarsýn á það hvernig samfélög eigi að virka.

Mig langar að heyra aðeins meira frá hv. þingmanni um það nákvæmlega í hvaða sambandi hann telur að þessi tillaga komi til með að bæta hagsmuni beggja landanna; hvort hann sjái fyrir sér að niðurfelling tolla sé aðalatriðið, eitthvað sem varðar skattamál eða því um líkt. Augljóslega eru þetta hlutir sem þyrftu að koma í ljós seinna meir, en hv. þingmaður hlýtur að hafa hugmyndir um það hvernig nákvæmlega þetta kæmi til með að virka í praxís.

Mig langar sömuleiðis að spyrja hv. þingmann hversu stóran hluta af mikilvægi tillögunnar hann telji felast í sameiginlegri grundvallarsýn þessara tveggja landa gagnvart sér í lagi mannréttindum, lýðræði og frelsi, þessum góðu gildum sem við kennum okkur jú við. Ég ætla ekkert að leyna því að ég spyr auðvitað í samhengi við þingsályktunartillöguna um fríverslunarsamning við Kína og hefði gaman af að heyra frá hv. þingmanni um það samhengi.