145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það horn sem hv. þingmaður skoðar þessa þingsályktunartillögu undan, með samanburði við Kína, er forvitnilegt og umræðunnar virði.

Ég velti því fyrir mér hvernig við sjáum fyrir okkur að best sé að hafa áhrif á ríki sem fylgja annars konar gildum en við, til dæmis varðandi mannréttindi. Nú liggur það algjörlega ljóst fyrir að Kína hefur annan skilning á mannréttindum en Ísland. Umræðan snerist á sínum tíma um það hvort við ættum að láta það leiða til þess að við eflum ekki samskipti við Kína. Á það að leiða til þess að við höfum ekki menningarleg samskipti við Kína eða viðskiptaleg? Sumir héldu því fram á sínum tíma og það er sjónarmið sem er fyllilega lögmætt. Ég er hins vegar andstæður því.

Tökum Kína eins og það var 1976 þegar Mao formaður dó. Það Kína var allt öðru vísi en það Kína sem er í dag. Hvað hefur breyst? Jú. Ef við tökum mannréttindin þá hygg ég að þau séu miklu skárri og betur á vegi stödd í Kína í dag en árið 1976. Hvað hefur gerst í Kína síðan? Jú. Kína hefur opnað landamæri sín undir forustu Deng Xiaoping sem sagði að það skipti ekki máli hvernig kötturinn væri á litinn bara ef hann veiddi mýs. Þá hafa Kínverjar sótt sér gríðarmikla þekkingu. Þeir eiga núna í miklum samskiptum við allan heiminn á sviði viðskipta.

Ég tel að sagan sýni að hönd í hönd leiðast aukin viðskipti og aukin menning og breyttir siðir. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hafa samskipti við lönd eins og Kína alveg eins og ég er þeirrar skoðunar að við eigum til dæmis ekki að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael, þó ég sé á móti stjórnarháttum þar. (Forseti hringir.) Við þurfum samtalið og þann þrýsting sem samskiptin veita. Sama gildir um Kína. Aukin viðskipti hafa áhrif eins og sagan hefur sýnt í Kína.