145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

fríverslunarsamningur við Japan.

22. mál
[17:31]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hv. þingmönnum vel fyrir mjög góðar undirtektir við þetta mál. Ég held að það fari ekki fram hjá neinum sem hefur hlustað á þessar góður umræður að hér ríkir full samstaða um að samþykkja þá þingsályktunartillögu sem við höfum flutt hér nokkrir þingmenn og varðar það að ríkisstjórnin hefji undirbúning viðræðna við Japan um fríverslun. Ég hef, bæði í greinargerð með þingsályktunartillögunni og í framsögu minni hér áðan, rakið nokkur atriði sem hníga að því að nú sé einmitt tíminn til þess.

Ég vil hnykkja á því að það skiptir máli í þessu sambandi að við horfum á árið 2016, þegar 60 ár eru liðin frá því að Ísland og Japan tóku upp stjórnmálasamband. Á þeim tímamótum væri það vel við hæfi að við samþykktum þessa þingsályktunartillögu og framkvæmdarvaldið tæki hana síðan upp á sína arma og gerði það sem í þess valdi stendur til að gera hana að veruleika.

Þá vil ég geta þess að við höfum notið atbeina ýmissa ráðherra hér við það mál. Ég vil ekki síst nefna hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem tók það mál upp af mikilli festu, bæði þegar hann var í Japan og síðan þegar hann var staðgengill hæstv. utanríkisráðherra sem vissulega hefur líka sýnt þessu máli áhuga. En það skiptir máli að vita af því að það eru skriðþungir menn í ríkisstjórninni sem eru sömu skoðunar.

Ég tel að það mundi vera mjög farsælt, sérstaklega í bili, fyrir íslenskan sjávarútveg ef tækist að ná þessu máli til lykta, en síðar meir mun það skipta miklu máli fyrir margar aðrar atvinnugreinar líka, ekki síst tæknigreinar og líka hugvitsiðnaðinn. Það vill svo til að Íslendingar hafa líka haslað sér völl á því sviði í Japan. Í því samhengi er skemmst að minnast þess að íslenskt fyrirtæki með heimilisfesti í Japan vann þar fyrir tveimur árum samkeppni um bestu framleiðslu sem þá var sett á markað, þannig að þarna er sannarlega eftir akurlendi sem hægt er að erja.

Þetta mál, ef samþykkt verður, mundi greiða fyrir frekari viðskiptum Íslands og Japans og það mundi um leið bæta hag neytenda í báðum löndunum.