145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

uppbygging áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi.

150. mál
[17:42]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þetta mál af því að ég er sannfærð um að með því að fara þessa leið getum við leyst það tiltölulega einfaldlega og ódýrt. Ekki veit ég hvort Stjórnstöð ferðamála getur tekið þetta upp á arma sína eða hver mun gera það þegar búið verður að stofna starfshóp því að ég geri ráð fyrir að málið nái fram að ganga. Ég trúi ekki öðru en að ráðherrann sé þess fullviss að þetta megi fara inn í púkkið í hugmyndum varðandi úrlausn þessara mála. Ekki hafa lausnirnar í þessum málaflokki streymt fram af hálfu ráðherrans. Við höfum lagt til í ræðu og riti ýmsar leiðir til fjármögnunar til að standa undir því að hægt sé að taka sómasamlega á móti ferðamönnum. Á ferðum okkar um landið, bæði í eigin kjördæmum og öðrum, er þetta það brýnasta sem við heyrum, að á löngum leiðum sé ekki hægt að stoppa og að allt of lítið sé um almenningssalerni eða aðra slíka aðstöðu fyrir ferðafólk, ekki bara erlenda túrista heldur líka Íslendinga sem um landið fara. Dettur mér bara í hug leiðin á Höfn í Hornafirði, þar er langur kafli með engri slíkri aðstöðu. Í raun er afar mikilvæg þörf þar sem og víða annars staðar. Það er ekki boðlegt að guma af því að ferðamönnum fjölgi alla daga og straumurinn aukist svo manni næstum óar við vegna þess að landið er ekki tilbúið að taka á móti honum. Það verður að segjast eins og er, hvort sem á við um þetta eða eitthvað annað. Þegar hægt er að leysa málin með jafn einföldum hætti, held ég, og hér er lagt upp með, að nýta að hluta til innviði sem til staðar eru, eiga menn að horfa út fyrir boxið og taka hugmyndum fagnandi. Eins og ég segi vona ég svo sannarlega að það verði gert og að nefndin afgreiði þetta fljótt og örugglega. Eins og kom fram hjá flutningsmanni er þetta ekki eitthvað sem Vegagerðin hefur ekki staðið í eða prófað að gera, heldur má segja að að mörgu leyti sé hún vön að sjá um slíka áningarstaði. Á áningarstöðum hennar eru nú þegar 27 salerni þannig að þetta ætti að vera tiltölulega einfalt. Við hugsum um að það sé aðgengi fyrir alla þannig að allir komist um og geti nýtt sér þessa þjónustu, en fyrst og síðast held ég að þetta snúist um að þeir sem koma að því að skipuleggja og eru núna væntanlega í vinnu við að skipuleggja þessa innviðauppbyggingu — það er alltaf verið að tala um að hlutirnir komi svo seint fram og þess vegna sé ekki hægt að lagfæra eða gera eitt og annað en nú er hér komin fram tillaga. Það er febrúar. Þetta þarf ekki að kosta stórkostlega hönnun. Það er reyndar nefnt að ráðherrann eigi að leggja niðurstöðurnar fyrir á vorþingi og ef málið verður ekki svæft í nefnd, sem því miður er hætta á með þingmannamál, á að vera hægt að koma einhverju af þessu til framkvæmda í sumar ef sá vilji er fyrir hendi að leysa málið með þessum hætti. Ráðherrann getur þá ekki skýlt sér á bak við að hugmyndir eða hönnun eða eitthvað slíkt sé svo seint fram komið að þess vegna sé ekki hægt að framkvæma.

Í það minnsta er búið að varpa þessu út í alheiminn. Þeir sem fara með stjórn þessa málaflokks geta velt hugmyndinni fyrir sér þótt hún sé ekki formlega komin í gegnum þingið.