145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

uppbygging áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi.

150. mál
[17:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég lít ekki svo á að í þessari tillögu skorti hugmyndir. Hugmyndin er sú að reist verði salerni á þessum áningarstöðum. Útfærslan á því nákvæmlega hvernig salernin eiga að vera, þ.e. form þeirra og allt það, er það sem hópurinn þyrfti að útfæra, hvar hann vildi byrja, hvar mesta þörfin væri o.s.frv. Við teljum að það liggi nokkuð fyrir. Ferðaþjónustan hefur svo sem látið vita af sér. Tíminn er þess vegna knappur. Við teljum að það eigi ekki að þurfa langan tíma til að gera þetta. Þess vegna sagði ég að það væri búið að varpa þessu út í alheiminn. Þeir sem eru að vinna með þessi mál geta tekið þessa hugmynd, hún er komin fram þó að hún sé ekki formlega farin í gegnum þingið, og áhugasamir geta tekið hana vilji þeir horfa út fyrir boxið og sjá þessa leið. Hér kemur fram að 27 staðir séu nú þegar með salerni. Við teljum að hægt sé að nýta hina rúmlega 440 í viðbót til að stilla upp klósettum og þeirri hreinlætisaðstöðu sem þarf.

Varðandi það að útvista, nei, við teljum ekki þurfa aðra útvistun en þá að Vegagerðin geti gert þetta. Við erum líka alltaf að hugsa um hvað þetta kostar. Við erum með mannskapinn á staðnum, hann fer á staðinn og hugsar um þessa áningarstaði. Við sjáum hagræði í að gera þetta vegna þess. Af þeirri ástæðu ákváðum við að leggja tillöguna fram frekar en að fara út í annars konar dýrar framkvæmdir þar sem við erum jafnvel í landshlutum að skipta þeim á milli ólíkra aðila. Við teljum það bara miklu tímafrekara og kostnaðarsamara.